Hugtakið sprotafyrirtæki er á góðri leið með að vera vel þekkt á Íslandi, ekki síður en í öðrum fyrsta heims löndum sem við kjósum að bera okkur saman við. Þar kemur einstaklingur (einn eða fleiri), oft ungt fólk, fram með ákveðna viðskiptahugmynd sem oftar en ekki byggist á hugviti og/eða tækniþekkingu. Svo vantar fjármagn til þess að koma hugmyndinni á koppinn og þá tekur samfélagið það að sér að búa til leiðir til að nálgast það fjármagn. Stundum er um opinbera sjóði að ræða, stundum einkaaðila, sem leggja fram ákveðna fjárhæð. Þetta þýðir auðvitað að sumar hugmyndir verða að veruleika og skila jafnvel arði, aðrar renna út í sandinn og skila engu. Samt er þetta talin skynsamleg leið því alltaf öðru hverju koma fram hugmyndir sem hefðu reynst höfundinum um of að hrinda í framkvæmd en sem slá í gegn með stuðningi og skila miklum arði. Og allir vildu þá Lilju kveðið hafa. Þetta líkan skilja t.d. örugglega ungir frjálshyggjumenn.

Og þetta er í raun sama líkanið og listamannalaun snúast um, að breyttu breytanda. Þar tekur ríkið sig til og leggur fram ákveðna upphæð til manna með hugmynd sem skortir fé til þess að framkvæma hana. Þeir sækja því um og ákveðið er að styðja lítinn hluta þeirra með mismunandi upphæðum sem aldrei þykja nógu háar þeim sem þiggur. Yfir sumum hugmyndanna er legið árum aman, mikil heimildavinna fer fram og fólk aflar sér gagna víða að – launalaust að öðru leyti. Sumar þeirra renna örugglega út í sandinn en alltaf öðru hverju slær einhver þeirra í gegn. Þá fer hún að skila hagnaði og hann rennur sko alls ekki bara til viðkomandi listamanns heldur njóta þar margir góðs af og svo auðvitað ríkiskassinn líka. Gott dæmi um það er sala á íslenskri tónlist og bókmenntum erlendis en veltan bara hér á landi er líklega meiri en nokkur maður gerir sér grein fyrir.

Það er ótrúlegt að lesa þá gagnrýni á þessi (í flestum tilfellum) eins manns sprotafyrirtæki listamanna sem sést hefur undanfarið og er reyndar árlegur farsi um þetta leyti. Mannauðurinn er besta kapítal hverrar þjóðar og menntun, verkkunnátta og listir eru þar í fyrirrúmi.  Við eigum að fagna því að hafa efni á að styðja við skapandi störf, hver svo sem þau eru. Fyrr á öldum var þessi stuðningur að mestu í höndum kirkjunnar og yfirstéttarinnar en nú hafa aðrir tekið við. Það er vel.

110 ár eru síðan afi minn Frímann Ágúst Jónasson kom í heiminn þann 30. nóvember 1901 og þar sem hann snart líf fjölmargra þykir mér við hæfi að minnast hans með nokkrum orðum. Hann starfaði lengi sem kennari og skólastjóri, fyrst sem farkennari við Ísafjarðardjúp, svo kennari á Akranesi, skólastjóri á Strönd á Rangárvöllum í 16 ár og loks skólastjóri við Kópavogsskóla í 15 ár. En fyrst vík ég að upphafinu.

Frímann fæddist að Fremrikotum í Skagafirði en foreldrar hans voru þau Jónas Jósef Hallgrímsson og Þórey Magnúsdóttir. Frímann var næstyngstur átta systkina, sjö þeirra náðu fullorðinsárum og frá þeim er mikill ættbogi kominn með afkomendum í mörgum löndum. Í fljótu bragði man ég eftir Alaska, Pennsylvaníu og New York, Kanada, Svíþjóð, Danmörku og Frakklandi. Faðirinn Jónas lést skömmu áður en Frímann varð fimm ára og má nærri geta hvort það hefur ekki orðið mikið áfall stórri fjölskyldu á afskekktu smábýli innst í Skagafirði. Þórey vann það þrekvirki að koma barnahópnum öllum til manns og brutust sum þeirra til mennta, t.d. sóttu bæði eldri bróðirinn Hallgrímur og Frímann Kennaraskólann í húsi því sem enn stendur og er nú aðsetur kennarasambandsins. Frímann hóf reyndar kennaraskólagönguna bókstaflega með því að ganga úr Skagafirði til Borgarness en þaðan var siglt til Reykjavíkur. Áður hafði hann svo numið bókband á Akureyri.

Að loknu kennaraprófi 1923 hélt Frímann vestur og var farkennari við Ísafjarðardjúp í tvö ár áður en honum bauðst staða á Akranesi þar sem hann kenndi í átta ár. Þann 15. maí 1926 kvæntist hann lífsförunauti sínum Málfríði Björnsdóttur frá Innstavogi við Akranes en þau höfðu kynnst í Kennaraskólanum. Þau eignuðust tvær dætur, þær Ragnheiði og Birnu, á meðan þau bjuggu á Akranesi.

Árið 1933 urðu miklar breytingar á högum þeirra þegar skólastjórastaða bauðst við nýreistan skóla á Strönd á Rangárvöllum. Frímann og Málfríður fluttu þangað með dæturnar og ári síðar eignuðust þau svo sitt þriðja barn, soninn Jónas.
Strönd var heimavistarskóli og þangað komu börnin til mánaðar dvalar í senn. Hinn mánuðinn áttu þau að lesa heima en þá voru þau skólaskyld 10-13 ára. Ekki dugði að kenna bara fögin og hvílast svo, börn og kennarafjölskyldan eyddu öllum stundum saman við nám og leik, allir snæddu saman og ýmsan vanda þurfti að leysa. Öllum þeim sem ég hef hitt eða heyrt í ber saman um að það hafi allt tekist af stökustu prýði og t.d. skrifaði Guðbjörg Böðvarsdóttir í minningargrein sinni um Frímann:
„Ég var svo lánsöm að vera barn á skólaaldri austur á Rangárvöllum á þeim árum sem Frímann var kennari þar og fékk að njóta hans góðu kennslu í fjóra vetur. Þegar ég lít til baka koma ótal minningar upp í huga minn, minningar um skemmtilega og lærdómsríka daga á Strönd, dagarnir þar voru svo sannarlega lærdómsríkir, við lærðum ekki eingöngu það sem stóð í bókunum, við lærðum að fara vel með bækurnar og annað sem við höfðum undir höndum, og við lærðum ekki síður að umgangast hvert annað. … Enn hlýnar mér um hjartarætur er leið mín liggur framhjá Strönd og mér koma í hug skemmtilegir skóladagar í glöðum hópi skólasystkina í skjóli okkar góða kennara.”

Skólamaðurinn Árni Böðvarsson var góður vinur afa (auk þess sem hann var kennarinn þess sem þetta ritar í MH fyrir margt löngu). Í minningargrein sinni sagði Árni m.a. eftirfarandi:
„Þá var kreppa í landi og víða var litið svo á að vorverk og haustverk á bæjum væru þarflegri en skólavist. Það þótti slæmt hversu snemma hálfvaxin börn voru tekin frá haustverkum og sluppu seint heim í vorverk. Slík viðhorf voru þó að mildast, ekki síst fyrir starfsemi manna eins og Frímanns. Börnin fluttu áhrifin heim á afskekktustu bæi. … Sumir voru illa læsir þegar þeir komu tíu ára í skólann, en aðrir höfðu lesið mikið, svo sem Íslendingasögur, Almanak Þjóðvinafélagsins og blöðin sem komu út vikulega, jafnvel oftar. Á fæstum bæjum var þá útvarpsviðtæki, en þau voru að breiðast út, enda hafði Ríkisútvarpið tekið til starfa 1930. … Á Strönd var útvarp, að vísu í eigu hjónanna inni í íbúð þeirra. Þar voru nemendur skólans velkomnir til að hlusta á barnatímann á sunnudögum og sitthvað fleira, fræðsluerindi, fréttir og þvílíkt eftir því sem hugurinn girntist. Dagskráin hófst að vísu yfirleitt ekki fyrr en klukkan átta á kvöldin og henni lauk með þjóðsöngnum upp úr klukkan tíu. Svo varð að kaupa rafhlöðu; hún entist kannski árið. Það varð líka að fara af bæ til að komast í rafmagn og láta hlaða sýrugeyminn með nokkurra vikna millibili. … Ekki höfðu Málfríður og Frímann verið lengi á Strönd þegar það orð var komið á að þar væri fólk sem betur en öðrum vandalausum mætti trúa fyrir börnum, hjá þeim liði bæði tápmiklum og pasturslitlum vel.”

Árið 1949 bauðst Frímanni að taka við Kópavogsskóla, nýlegum skóla í ungu og uppvaxandi bæjarfélagi, til að móta og byggja upp. Líklega hafa ástæður flutninganna bæði verið það ögrandi verkefni að takast á við skóla í meira fjölmenni og svo hitt að börn þeirra hjóna vildu öll halda áfram námi og þá lá jú leiðin yfirleitt til Reykjavíkursvæðisins. Það má nærri geta að ekki hefur það alltaf verið tekið út með sitjandi sældinni að stýra skóla í bæjarfélagi í örri þróun þar sem oft gat mikið gengið á. Óli Kr. Jónsson kennari, sem síðar tók við skólastjórninni þegar Frímann hætti störfum, hafði þetta að segja í sinni minningargrein:
„Þegar Frímann tók við stjórn Kópavogsskólans 1949 var skólinn ekki fjölmennur, en íbúum Kópavogs fjölgaði mjög ört á næstu árum og þá einnig nemendum í skólanum, svo ört að ekki hafðist undan að byggja. Voru því mikil þrengsli í skólanum mest alla skólastjórnartíð Frímanns, tví- og þrísett í hverja stofu og fyrstu árin vantaði einnig sérstofur og leikfimisal. Við slíkar aðstæður reyndi mjög á stjórnanda skólans, en allan vanda leysti Frímann, ekki með hávaða og látum heldur með röggsemi, prúðmennsku og ekki síst hlýlegu viðmóti, jafnt við starfslið sem nemendur. Hann var mjög vinsæll í starfi og var gott að leita til hans með vandamálin ekki síst fyrir unga og óreynda kennara eins og mig á mínum fyrstu árum hér.
Það kom í hlut Frímanns að móta starfshætti og venjur í Kópavogsskólanum og að því býr skólinn enn. Frímann vildi fyrst og fremst vera félagi og vinur síns fólks en ekki valdbjóðandi, vildi gagnkvæmt traust og samvinnu, og ég held að enginn hafi viljað bregðast trausti hans. Frímann var góður skólamaður og fylgdist vel með þróun skólamála. Hann fór nokkrar ferðir til útlanda til að kynna sér skólamál. Hann ferðaðist mikið um landið og var kunnugur sögu lands og þjóðar.”

Afi Frímann var hógvær að eðlisfari og lítið fyrir að trana sér fram en naut þess samt að stunda félagsstörf. Hann sat í stjórnum kennara- og ungmennafélaga, var í stjórn Norræna félagsins í Kópavogi og félagi í Rotary-klúbbi Kópavogs. Hann stofnaði stúku með öðrum á Rangárvöllum og sinnti lestrarfélögum og bókasöfnum. Hann hætti svo skólastjórn 1964 því hann vildi hætta skóla störfum á meðan hann ætti ennþá nokkurt starfsþrek til að sinna öðrum áhugamálum, ekki síst skriftum og bókbandi. Hann skrifaði nokkrar bækur handa börnum og unglingum, Hve glöð er vor æska (1944). Þegar sól vermir jörð (1950). Valdi villist í Reykjavík (1980) og Landið okkar, lesbók um landafræði Íslands (1969). Auk þess skrifaði hann frásagnir og minningargreinar í blöð og flutti útvarpserindi, að ógleymdri ævisögu sinni óútgefinni en kaflar úr henni hafa birst í tímaritinu Skildi.

Frímann gat verið grallari og fór stundum með kersknisvísur fyrir mig og aðra. Sumar voru örugglega frumsamdar en síðar þekkti ég að Káinn átti aðrar. Við minnumst líka bréfsins frá Danmörku til grannvaxinnar og léttfættrar ömmu minnar með utanáskriftinni:
Frú Málfríður Björnsdóttir Digra-
Nesvegi 38
Kópavogi.

Amma Málfríður kenndi oft börnum sem áttu við vanda að stríða og myndu líklega njóta sérkennslu nú á dögum. En heimilið var hennar helsti vettvangur og þangað þótti mér alltaf gott að koma, fyrst sem barn og unglingur og síðar með barnunga dóttur mína sem náði því miður ekki að kynnast langömmu sinni nógu vel því amma Málfríður lést árið 1977 eftir stutt veikindi. Og það var eins og afi Frímann bæri aldrei almennilega sitt barr eftir það.
Hann bjó einn um nokkurra ára skeið en dvaldist svo að Ási í Hveragerði í nokkur ár og lagðist að lokum inn á Landakotsspítala. Ég sat lengi hjá honum gamlárskvöldið 1987 og við ræddum um alla heima og geima. Hann sagði mér frá þungum draumförum sem hann túlkaði sem svo að dauðinn væri í nánd og kannski skynjaði hann það sem ég vildi EKKI segja honum, að við værum á leið til Lundúna með ungan son okkar í hjartaaðgerð þar sem líf lá við. Sú aðgerð tókst vel en það er önnur saga.
Frímann lést svo 16. janúar 1988 en skömmu fyrir jól hafði hann lofað dóttur sinni, móður minni, að bíða eftir henni þar til hún kæmi heim frá systur sinni í Bandaríkjunum. Við það stóð hann eins og annað sem hann lofaði, dó daginn eftir að hún kom heim.

Frímann Jónasson var einn þeirra sem byggðu upp þetta land og þessa þjóð. Nú er það undir okkur sporrekjendunum komið að sýna og sanna að allt það erfiði hafi ekki verið unnið fyrir gýg.

Matthías Kristiansen

                                                  (Stytt útgáfa greinarinnar birtist í Mbl. 30/11 2011).

Mikið hefur verið skrifað um meintar lífsskoðanir fjöldamorðingjans Breivik og allir þeir sem gætu fallið undir einhvern þann sama hóp og hann telur sig til, keppast við að sverja hann af sér. Og engin furða… Maður sem telur sig kristinn, íhaldsmann, þjóðernissinna, andstæðing íslams, stuðningsmann Ísraels og borgara sem ekki fær að koma máli sínu að í fjölmiðlum, á sér málsstað sem ótal margir geta samsamað sig við.

Málið snýst þó ekki um það, heldur kristallast í merkinu á öxl hans, „Marxist Hunter“. Þar sjáum við í hnotskurn þessa hættulegu stefnu að smætta andstæðinginn,  líta á hann sem gráan massa og þannig taka frá honum mennskuna – því þá er ekkert mál að gefa út veiðileyfi á hann. Með merki sínu segir Brevik: ,,Ef þú ert marxisti, ert þú réttdræpur (og ég ætla sjálfur að skilgreina hvort þú ert marxisti eða ekki)“!

Og þannig réðst hann að mörg hundruð ungmenna hópi, fulltrúum pólitískrar stefnu sem hann hataðist við, fulltrúum sem hann smættaði í eigin huga þar til fólkið varð afmennskt í hugarheimi hans, grár massi og réttdræpt.

Einn af fylgifiskum Netsins er sá að umræðuhópar verða oft býsna lokaðir, þar tala bara menn sem eru sammála og styðja hver annan í skoðunum sínum. Komi einhver með aðrar skoðanir og vilji rökræða er ráðist að honum með oddi og egg, persónulegum svívirðingum og alhæfingum, þar til hann hrökklast burt og lætur ekki sjá sig á þeim stað á ný. Hættan er auðvitað sú að með skorti á viðnámi í formi andstæðra skoðana gangi menn stöðugt lengra og að lokum grípi einhver veikgeðja sál í örvæntingu sinni til óyndisúrræða, oft til varnar einhverjum (jafnvel ímynduðum) málstað sem viðkomandi heldur að sér verði þakkað fyrir í framtíðinni. Líklega á þetta við um alla þá sem á undanförnum áratugum hafa framið stór hryðjuverk gegn almenningi í Bandaríkjunum og Evrópu, t.d. í Oklahoma, New York, Madríd, London, Moskvu og nú síðast í Ósló. En hvergi nema í Noregi var ráðist gegn ákveðnum skilgreindum pólitískum hópi – og það gerir þetta nýjasta ódæði einstakt.

(Sú aðferð að alhæfa um meinta andstæðinga sína er reyndar vel kunn á íslenskum bloggsíðum og enginn þarf að leita lengi til þess að sjá dæmi um hana. Hér er ein nokkuð lýsandi: ,,Eins og ég hef bent á annars staðar er kjarni allrar vinstri mennsku hatur á eigin umhverfi og þjóðfélagi, sem oft er réttlætt með hugmyndafræði og fögrum orðum.“ (VE).)

Búrfuglar AMX eru með böggum hildar og skrá hverja færsluna á fætur annarri til að reyna að ritskoða fjölmiðla heims sem kalla fjöldamorðingjann Breivik hægri öfgamann. Sú Bjarmalandsför er þó til lítils því maðurinn er það einmitt óumdeilanlega, hægri öfgamaður. Sjálfur skilgreindi hann sig sem conservative eða íhaldsmann á Fésbók (og reyndar kristinn líka), hann var lengi félagi í Fremskrittspartiet sem skilgreinir sig sem hægri flokk og ekki er hægt að kalla morðæði hans annað en öfgar. Bjánalegust er þó tilraun búrfuglanna að reyna að þýða hugtakið national socialist beint. Maðurinn er nefnilega ekki sagður nasisti heldur nýnasisti sem er allt annað mál og í allri pólitískri orðræðu erlendis er litið á þá söfnuði sem hægri öfgahópa.

Ég minnist þess að snemma á tíunda áratug var ég fenginn af RÚV til að þýða finnskan viðtalsþátt við alla norrænu forsætisráðherrana. Til þeirra var m.a. beint spurningum um uppgang nýnasista og hvort ástæða væri til að hafa áhyggjur af honum. Allir lýstu þeir yfir miklum áhyggjum af þeirri öfgastefnu, bæði á Norðurlöndum og meginlandinu; allir nema einn, sá íslenski. Hann sá enga hættu þar á ferð, taldi umræðuna óþarfa og þessa hreyfingu á engan hátt hættulega. Hverjir höfðu rétt fyrir sér í þeirri umræðu – og hverjir rangt?

Raunar virðast menn á Norðurlöndum stöðugt gera meira ráð fyrir því að Breivik hafi ekki verið einn á ferð og þá er fallin um sjálfa sig enn ein kenningin, sú um geðveikan einfara sem tryllist. En rannsókn á vitanlega eftir að leiða í ljós hvort fleiri áttu þátt að máli.

Allt að einu, sorg ríkir á Norðurlöndum yfir þessum voðaverkum og aðstandendur og vinir hinna myrtu eiga óskipta samúð okkar allra.

Þegar ekið er frá Akureyri til Reykjavíkur er það bara rúmlega 70 km lengri leið að fara um göngin þrjú og Siglufjörð, Sauðárkrók og Þverárfjallsveg að Blönduósi í stað hinnar hefðbundnu leiðar. Þar hefur því myndast stór og spennandi hringur sem ferðafólk er eindregið hvatt til þess að prófa. Ég fór hann nú um helgina og hafði mjög gaman af. Þarna má á einu bretti sjá flesta þéttbýliskjarna landshlutans og margar helstu náttúruperlurnar.

Það er gaman að sjá Íslendinga nú hópum saman bera saman Ísland og Noreg og kemur Noregur oftast betur út úr þeim samanburði, ekki síst hvað tekjur varðar, en Norðmenn hafa auðvitað mun hærri meðaltekjur en við hér á skerinu. Ánægjulegt er hve margir horfa öfundaraugum austur til míns gamla föðurlands þar sem vinstrisinnaður verkamannaflokkur (sem nú hefur reyndar færst nær miðju) réði lögum og lofum um áratugaskeið og lagði grunn að miklu velferðarsamfélagi. Noregur er eitt af fáum ríkjum heims sem á fyrir skuldum sínum og gott betur (orðalag gert nákvæmara skv. ábendingu) og býr að gríðarmiklum sjóði olíugróða sem lagður hefur verið til hliðar. Allir vita hvernig fór á Íslandi eftir áratugastjórn stóra flokksins hér.

En það er ekki einhlítt að bera saman bensínverð og laun. Ódýrasti Ford Mondeo dísil kostar um 6,4 milljónir í Noregi en 4,3 hér og er það nokkuð dæmigerður verðmunur á bílum í minni flokkum, hann mun vera meiri þegar kemur að stærri bílum. Það þætti Íslendingum hátt bílverð.

Það kostar yfir 500 kr. skiptið í vegatollum að aka inn í Ósló eða líklega vel yfir 100.000 hr. á ársgrundvelli og líklegt er að dæmigerður Norðmaður verji á bilinu 150.000 til 200.000 í vegatolla á ári, enda allir stærri bæir girtir af og víða innheimt á þjóðvegum. Varla eru Íslendingar að biðja um það?

Kyndingarkostnaður húsa er auðvitað miklu hærri en hér og þar sem rafmagnsverð ræðst af framboði og eftirspurn getur það orðið umtalsverður kostnaðarliður og svona mætti lengi telja – en það er samt rétt sem ég hef lengi haldið fram, að Noregur er gott land að búa í.

Þess er skemmst að minnast að Verslunarráð lýsti frati á Norðurlönd hér um árið og sagði þau á engan hátt samanburðarhæf við Ísland. Það hefur reynst rétt – að vísu þó með öfugum formerkjum. Vonandi hefur hroki margra minnkað undanfarið gagnvart Noregi, þessari miklu vinaþjóð okkar í austri sem við eigum svo margt að þakka.

En hvað bensínverð varðar, held ég að við ættum að bera okkur saman við lönd með áþekku kaupmáttarstigi og ríkir á Íslandi, ekki við Noreg sem er í sérflokki með tekjur og kaupmátt. Ísland er einfaldlega ekki samanburðarhæft við bestu lönd heims – að sinni.

Nú er mikið rætt um nauðsyn þess að lækka bensínverð svo Íslendingar hafi efni á að ferðast innanlands. Verðið er vissulega hátt en ólíklegt er að bensín lækki að neinu marki í innkaupsverði héðan í frá, einfaldlega vegna þess að stöðugt dýrara verður að ná í olíu í iður jarðar.

En hvað kostar vikuferð fjölskyldu hringinn í kringum Ísland? Sé gist hjá ættingjum eða vinum í tvær nætur en gisting keypt í fimm fyrir hjón með tvö börn er óraunhæft að gera ráð fyrir lægra verði á keypta gistinótt en 20.000,-. Sé farið út að borða einu sinni á dag þessa fimm daga gæti það kostað um 10.000 skiptið. Þótt aðeins sé litið á þessa þætti en ekki tekið tillit til aðgangseyris, sælgætiskaupa og annarra útgjalda, kostar áðurnefnd gisting því kr. 100.000, máltíðirnar 50.000 og bensínið um 50.000 eða alls um 200.000 fyrir vikuna. Af því verði er bensín 25% kostnaðarins og þótt skattar af því væru lækkaðir um helming myndi ferðalagið samt kosta hátt í 190.000 krónur. Það er því augljóst að þarna ráða sveiflur í bensínverði ekki úrslitum um ferðalög, aðrir þættir vega miklu þyngra.

Það er auðvitað hægt að taka með fjölmargar aðrar breytur, t.d. húsvagn, gistingu í tjaldi og að veiða sér til matar, en hér er reynt að hafa í huga hvernig Íslendingar ferðast erlendis og svo að yfirfæra það á Ísland.

… er fullyrðing margra og það er reyndar besta röksemdin sem fram hefur kom fyrir því að draga ábyrgan ráðherra fyrir Landsdóm. Seðlabankastjóri varaði forsætisráðherra við en það var hunsað. Þess vegna er nú réttað í málinu að frumkvæði Bjarna Benediktssonar (var einhver að tala um kaldhæðni?)

Í viðtali við Moggann í dag segir Bjarni Ben. formaður m.a.a eftir farandi:

„Lítil mynt eins og íslenska krónan kallar á þeim mun meiri aga og stöðugleika. Þess vegna á áherslan að vera á að efla efnahagslífið og þar er NÚVERANDI ríkisstjórn ekki á heimavelli.“ (Leturbreyting mín, MK).

Allt frá lokum síðari heimsstyrjaldar skömmu eftir lýðveldistökuna og fram á níunda áratug síðustu aldar var íslenskt efnahagslíf í viðjum hafta með sína litlu mynt. Þrátt fyrir erlenda styrki (t.d. Marshall-hjálpina) og gríðarlega sölu á afurðum sjávarútvegs sem mokað var upp héldu stjórnvöld harðri hendi um allt sem laut að innflutningi og gjaldeyrismálum og þar var ekki alltaf réttsýni í fyrirrúmi við ákvarðanatöku. Verðbólga var allan tímann mikil, mældist í tugum eða jafnvel hundruðum prósenta árlega og hvorki stjórnvöld né Seðlabanki (eftir að hann kom til sögunnar) fengu við neitt ráðið.

Upp úr 1990 var með samvinnu og fórnum verkalýðshreyfingar reynt að hemja verðbólguna, jafnframt því að opna samfélagið, koma því inn í nútímann og skapa eðlilegt viðskiptalíf. Stjórnvöld settu sér EITT mikilvægt takmark í hagstjórninni, að verðbólga færi ekki upp fyrir 2,5% á ársgrundvelli. Þeim árangri náðu ríkisstjórnir Davíðs, Halldórs og Geirs ALDREI þrátt fyrir hagstæðar ytri aðstæður megnið af tímanum. Sá árangur er að nást núna, þrátt fyrir miklu minni viðskipta- og gjaldeyrishöft en þekktust hér áður fyrr.

Það er sjálfsagt að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir það sem betur má fara en að sletta fram hálfsannleika umhugsunarlaust og án þekkingar á fortíðinni er engum sæmandi.

 

 


Það er undarlegt að verða vitni að því upphlaupi undir merkjum SÁÁ sem nú á sér stað. Samtök sem lengi hafa barist fyrir þeim skilningi að alkóhólismi sé sjúkdómur en ekki bara almennur aumingjaskapur, beita nú öllum sínum þunga til að ráðast gegn þeirri greiningu geðræns ástands sem hefur regnhlífarheitið ADHD og gera það sem allra tortryggilegast. Fá geðræn vandamál hafa verið rannsökuð jafn vel og ADHD/DAMP eða ofvirkni/vanvirkni og svo hefur auk þess tekist að finna nokkur lyf sem gagna vel gegn þessu ástandi. Sum þeirra hafa verið leyfð hér á landi og þar sem íslenskir læknar eru framarlega í flokki á heimsvísu urðu þessi lyf strax mikið notuð. Og einhverjir misnota þau auðvitað líka, því miður.

En þá er stokkið af stað með rógsherferð sem hittir alla þá sem þurfa að taka þessi lyf. Þeir eru margir á öllum aldri og ég þekki marga þeirra. Þegar talsmaður SÁA vogar sér að halda því fram að ADHD hafi ekki þekkst í fullorðnum fyrir 15 árum, talar hann annað hvort gegn betri vitund eða af yfirgripsmikilli vanþekkingu. Fólkið var til en því buðust engar lausnir. Það hefur breyst.

Um miðjan níunda áratug sýndu norrænar rannsóknir (ég man eftir finnskri, norskri og danskri rannsókn) að 50-80% fanga væru með greinileg einkenni ADHD. Það eitt ætti að staðfesta að vandinn er alvarlegur. Rítalín er hins vegar ekki eina lausnin heldur hluti af miklu stærri pakka, ef vel ætti að vera. Þar kemur einnig til atferlismeðferð, þjálfun í samskiptum og einbeitingu og margt annað sem fagfólk er fært um að veita.

Ég vona að SÁÁ-menn beini nú sjónum sínum að raunverulegri lyfjamisnotkun, þeirri sem hér hefur staðið áratugum saman og hófst löngu áður en rítalín kom til sögunnar, en ráðist ekki gegn sjúkdómsmeðferð sem er að minnsta kosti jafnvel dokumenteruð og meðferð á alkóhólisma sem sjúkdómi. Eða þora þeir kannski ekki í stóra vandann heldur ráðast á þann sem þeir álíta liggja best við höggi?

Að öðru leyti vísa ég á grein Grétars Sigurbergssonar í blöðum dagsins.