Haustið 1957 var að venju réttað í Hvolsrétt og var tilhlökkun okkar krakkanna mikil. Steinn bóndi á Þinghóli hafði lengi leyft mér, sex ára guttanum, að eigna mér hestinn Glóa sem var til þess að gera rólyndisklár en gat þó tekið á rás ef svo bar undir.
Réttardagurinn rann upp og við héldum á staðinn. Ekki fer miklum sögum af gagnsemi minni við smalamennskuna en þegar nokkrir eldri strákar hleyptu á skeið varð Glói „fyr og flamme” eins og Lars Himmelbjerg löngu síðar og tók á gríðarlegan sprett sem pollinn réði ekkert við en gat þó haldið sér á baki – að sinni. Hinir hestarnir æddu niður að Gilinu svokallaða, þurrum farvegi sem gat fyllst af vatni í leysingum, og Glói með mig á eftir, haldandi dauðahaldi í taum og fax. Skyndilega tók hesturinn vinkilbeygju til vinstri en ég flaug af baki og lenti með hægri olnboga á stórum steini. Ég minnist vítiskvala í stutta stund en svo dofnaði handleggurinn og hékk eins og blautt ullarföðurland á snúru í logni. Ég stóð upp eftir smástund og í sama mund komu menn að sem séð höfðu hestinn fælast. Ég var fluttur með hraði til héraðslæknisins á Stórólfshvoli sem kvað upp úr um að olnboginn væri illa brotinn og að ég þyrfti að komast á Landspítalann sem allra fyrst. Foreldrar mínir óku í loftinu þessa um 100 km og lá svo á að á leiðinni ók faðir minn á lamb og tafðist við að fara heim á bæinn.
Á spítalanum lá ég í sjö vikur og eftir tvær umtalsverðar aðgerðir var útlitið ekki gott. Læknunum hafði ekki tekist að laga flókið olnbogabrotið og voru eiginlega orðnir úrkula vonar um að það tækist að bjarga handleggnum.
Prófessor Snorri Hallgrímsson var þá helsti skurðlæknir landsins og hafði tekið þátt í báðum aðgerðunum á mér en er hér var komið sögu horfði hann á samstarfsmenn sína og sagði: „Við sendum ekki strákinn heim einhentan nema reyna allt sem við getum.” Ég var síðan svæfður í sjö tíma og læknarnir unnu að olnboganum í heilan dag. Èg vaknaði næsta morgun aumur og gifsaður í bak og fyrir en það skrýtna er að ég minnist ekki mikils sársauka.
Til að gera langa sögu stutta heppnaðist aðgerðin fullkomlega, að vísu hef ég aldrei haft fullan styrk í handleggnum og ég get hvorki beygt hann né rétt úr fullkomlega en ég hef aldrei verki og bæði spilað á gítar og barið á lyklaborði af miklum móð.

Ferill Snorra er um margt sérstakur. Að loknu doktorsprófi starfaði hann í Svíþjóð og víða fram til 1943 að undanskildu árinu 1939 er hann starfaði hér á landi. Þá var hann herlæknir í sjálfboðaliði Svía í Finnlandsstyrjöldinni 1939-40 og var sæmdur Finnska frelsiskrossinum með sverði og rauðum krossi og minnispeningi Finnlandsstyrjaldarinnar með sverði 1940. Hann var einnig sæmdur riddarakrossi íslensku fálkaorðunni 1957, riddarakrossi Sænsku Norðurstjörnunnar og stórriddarakrossi fálkaorðunnar 1972.
Snorri var starfandi læknir í Reykjavík 1943-47 og síðan sérfræðingur í handlækningum. Hann var aðstoðarlæknir við Landspítalann 1944-45, deildarlæknir þar 1947-51 og prófessor í handlæknisfræði við HÍ og jafnframt yfirlæknir við handlækningadeild Landspítalans frá 1951 og til æviloka.
Snorri var í hópi þekktustu og virtustu lækna landsins á sinni tíð. Hann sat í læknaráði, í byggingarnefnd Landspítalans, var forseti læknadeildar HÍ, og sat í stjórn Nordisk Kirugisk Forening, var formaður Skurðlæknafélags Íslands og formaður Vísindasjóðs frá stofnun hans og til æviloka. (Upplýsingar fengnar úr Morgunblaðinu, Merkir Íslendingar). – Èg var sem sagt í góðum höndum.

Sögunni er þó ekki alveg lokið. Árin 1973-74 vann ég með háskólanámi hjá Steinari Waage skókaupmanni, einstöku ljúfmenni sem öllum reyndist vel. Steinar gekk við staf og við nánari eftirgrennslan kom í ljós að Snorri hafði bjargað því sem bjargað varð af fæti hans. Var Steinar Snorra ævinlega þakklátur eftir það og nefndi m.a. son sinn eftir honum.
Það er blessun þjóðarinnar að hafa átt marga úrvals lækna og við ættum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja þeim sem bestar starfsaðstæður. Á því hagnast allir.