Á ferð um Virginíuríki í Bandaríkjunum rakst ég í búð á konu sem afgreiddi mig um smáræði. Hún spurði mig hvaðan ég væri, og öfugt við marga vissi hún hvar Ísland var. Árið 1978 eða 79 þvældist hún um Evrópu í heilt sumar og þegar hún millilenti á Íslandi á heimleið ákvað hún að þiggja tilboð flugfélagsins um ókeypis dvöl í fáeina daga þótt hún ætti aðeins 20 dali í vasanum. Þar rakst hún á íslenska konu sem sagði að hún yrði að fara aðeins um landið, bauð henni heim í kvöldverð og lánaði henni allnokkra upphæð sem sú bandaríska gæti endurgreitt með því að senda féð syni þeirrar íslensku sem var við nám í Los Angeles.

Viðmælandi minn sagðist hafa sent ávísunina strax við komu heim til Boston til að sýna að Bandaríkjamönnum væri treystandi, hún hefur aldrei gleymt þessu vinarbragði ókunnrar konu og nú er hún á leið til Íslands á ný, að þessu sinni með manni sínum sem er að ljúka starfsævinni hjá NASA við að hanna nýja geimskutlu.

Hvort sem okkur líkar það betur eða verr erum við öll sendiherrar þjóðar okkar og lands. Gætum að því.