Hugtakið sprotafyrirtæki er á góðri leið með að vera vel þekkt á Íslandi, ekki síður en í öðrum fyrsta heims löndum sem við kjósum að bera okkur saman við. Þar kemur einstaklingur (einn eða fleiri), oft ungt fólk, fram með ákveðna viðskiptahugmynd sem oftar en ekki byggist á hugviti og/eða tækniþekkingu. Svo vantar fjármagn til þess að koma hugmyndinni á koppinn og þá tekur samfélagið það að sér að búa til leiðir til að nálgast það fjármagn. Stundum er um opinbera sjóði að ræða, stundum einkaaðila, sem leggja fram ákveðna fjárhæð. Þetta þýðir auðvitað að sumar hugmyndir verða að veruleika og skila jafnvel arði, aðrar renna út í sandinn og skila engu. Samt er þetta talin skynsamleg leið því alltaf öðru hverju koma fram hugmyndir sem hefðu reynst höfundinum um of að hrinda í framkvæmd en sem slá í gegn með stuðningi og skila miklum arði. Og allir vildu þá Lilju kveðið hafa. Þetta líkan skilja t.d. örugglega ungir frjálshyggjumenn.

Og þetta er í raun sama líkanið og listamannalaun snúast um, að breyttu breytanda. Þar tekur ríkið sig til og leggur fram ákveðna upphæð til manna með hugmynd sem skortir fé til þess að framkvæma hana. Þeir sækja því um og ákveðið er að styðja lítinn hluta þeirra með mismunandi upphæðum sem aldrei þykja nógu háar þeim sem þiggur. Yfir sumum hugmyndanna er legið árum aman, mikil heimildavinna fer fram og fólk aflar sér gagna víða að – launalaust að öðru leyti. Sumar þeirra renna örugglega út í sandinn en alltaf öðru hverju slær einhver þeirra í gegn. Þá fer hún að skila hagnaði og hann rennur sko alls ekki bara til viðkomandi listamanns heldur njóta þar margir góðs af og svo auðvitað ríkiskassinn líka. Gott dæmi um það er sala á íslenskri tónlist og bókmenntum erlendis en veltan bara hér á landi er líklega meiri en nokkur maður gerir sér grein fyrir.

Það er ótrúlegt að lesa þá gagnrýni á þessi (í flestum tilfellum) eins manns sprotafyrirtæki listamanna sem sést hefur undanfarið og er reyndar árlegur farsi um þetta leyti. Mannauðurinn er besta kapítal hverrar þjóðar og menntun, verkkunnátta og listir eru þar í fyrirrúmi.  Við eigum að fagna því að hafa efni á að styðja við skapandi störf, hver svo sem þau eru. Fyrr á öldum var þessi stuðningur að mestu í höndum kirkjunnar og yfirstéttarinnar en nú hafa aðrir tekið við. Það er vel.