110 ár eru síðan afi minn Frímann Ágúst Jónasson kom í heiminn þann 30. nóvember 1901 og þar sem hann snart líf fjölmargra þykir mér við hæfi að minnast hans með nokkrum orðum. Hann starfaði lengi sem kennari og skólastjóri, fyrst sem farkennari við Ísafjarðardjúp, svo kennari á Akranesi, skólastjóri á Strönd á Rangárvöllum í 16 ár og loks skólastjóri við Kópavogsskóla í 15 ár. En fyrst vík ég að upphafinu.

Frímann fæddist að Fremrikotum í Skagafirði en foreldrar hans voru þau Jónas Jósef Hallgrímsson og Þórey Magnúsdóttir. Frímann var næstyngstur átta systkina, sjö þeirra náðu fullorðinsárum og frá þeim er mikill ættbogi kominn með afkomendum í mörgum löndum. Í fljótu bragði man ég eftir Alaska, Pennsylvaníu og New York, Kanada, Svíþjóð, Danmörku og Frakklandi. Faðirinn Jónas lést skömmu áður en Frímann varð fimm ára og má nærri geta hvort það hefur ekki orðið mikið áfall stórri fjölskyldu á afskekktu smábýli innst í Skagafirði. Þórey vann það þrekvirki að koma barnahópnum öllum til manns og brutust sum þeirra til mennta, t.d. sóttu bæði eldri bróðirinn Hallgrímur og Frímann Kennaraskólann í húsi því sem enn stendur og er nú aðsetur kennarasambandsins. Frímann hóf reyndar kennaraskólagönguna bókstaflega með því að ganga úr Skagafirði til Borgarness en þaðan var siglt til Reykjavíkur. Áður hafði hann svo numið bókband á Akureyri.

Að loknu kennaraprófi 1923 hélt Frímann vestur og var farkennari við Ísafjarðardjúp í tvö ár áður en honum bauðst staða á Akranesi þar sem hann kenndi í átta ár. Þann 15. maí 1926 kvæntist hann lífsförunauti sínum Málfríði Björnsdóttur frá Innstavogi við Akranes en þau höfðu kynnst í Kennaraskólanum. Þau eignuðust tvær dætur, þær Ragnheiði og Birnu, á meðan þau bjuggu á Akranesi.

Árið 1933 urðu miklar breytingar á högum þeirra þegar skólastjórastaða bauðst við nýreistan skóla á Strönd á Rangárvöllum. Frímann og Málfríður fluttu þangað með dæturnar og ári síðar eignuðust þau svo sitt þriðja barn, soninn Jónas.
Strönd var heimavistarskóli og þangað komu börnin til mánaðar dvalar í senn. Hinn mánuðinn áttu þau að lesa heima en þá voru þau skólaskyld 10-13 ára. Ekki dugði að kenna bara fögin og hvílast svo, börn og kennarafjölskyldan eyddu öllum stundum saman við nám og leik, allir snæddu saman og ýmsan vanda þurfti að leysa. Öllum þeim sem ég hef hitt eða heyrt í ber saman um að það hafi allt tekist af stökustu prýði og t.d. skrifaði Guðbjörg Böðvarsdóttir í minningargrein sinni um Frímann:
„Ég var svo lánsöm að vera barn á skólaaldri austur á Rangárvöllum á þeim árum sem Frímann var kennari þar og fékk að njóta hans góðu kennslu í fjóra vetur. Þegar ég lít til baka koma ótal minningar upp í huga minn, minningar um skemmtilega og lærdómsríka daga á Strönd, dagarnir þar voru svo sannarlega lærdómsríkir, við lærðum ekki eingöngu það sem stóð í bókunum, við lærðum að fara vel með bækurnar og annað sem við höfðum undir höndum, og við lærðum ekki síður að umgangast hvert annað. … Enn hlýnar mér um hjartarætur er leið mín liggur framhjá Strönd og mér koma í hug skemmtilegir skóladagar í glöðum hópi skólasystkina í skjóli okkar góða kennara.”

Skólamaðurinn Árni Böðvarsson var góður vinur afa (auk þess sem hann var kennarinn þess sem þetta ritar í MH fyrir margt löngu). Í minningargrein sinni sagði Árni m.a. eftirfarandi:
„Þá var kreppa í landi og víða var litið svo á að vorverk og haustverk á bæjum væru þarflegri en skólavist. Það þótti slæmt hversu snemma hálfvaxin börn voru tekin frá haustverkum og sluppu seint heim í vorverk. Slík viðhorf voru þó að mildast, ekki síst fyrir starfsemi manna eins og Frímanns. Börnin fluttu áhrifin heim á afskekktustu bæi. … Sumir voru illa læsir þegar þeir komu tíu ára í skólann, en aðrir höfðu lesið mikið, svo sem Íslendingasögur, Almanak Þjóðvinafélagsins og blöðin sem komu út vikulega, jafnvel oftar. Á fæstum bæjum var þá útvarpsviðtæki, en þau voru að breiðast út, enda hafði Ríkisútvarpið tekið til starfa 1930. … Á Strönd var útvarp, að vísu í eigu hjónanna inni í íbúð þeirra. Þar voru nemendur skólans velkomnir til að hlusta á barnatímann á sunnudögum og sitthvað fleira, fræðsluerindi, fréttir og þvílíkt eftir því sem hugurinn girntist. Dagskráin hófst að vísu yfirleitt ekki fyrr en klukkan átta á kvöldin og henni lauk með þjóðsöngnum upp úr klukkan tíu. Svo varð að kaupa rafhlöðu; hún entist kannski árið. Það varð líka að fara af bæ til að komast í rafmagn og láta hlaða sýrugeyminn með nokkurra vikna millibili. … Ekki höfðu Málfríður og Frímann verið lengi á Strönd þegar það orð var komið á að þar væri fólk sem betur en öðrum vandalausum mætti trúa fyrir börnum, hjá þeim liði bæði tápmiklum og pasturslitlum vel.”

Árið 1949 bauðst Frímanni að taka við Kópavogsskóla, nýlegum skóla í ungu og uppvaxandi bæjarfélagi, til að móta og byggja upp. Líklega hafa ástæður flutninganna bæði verið það ögrandi verkefni að takast á við skóla í meira fjölmenni og svo hitt að börn þeirra hjóna vildu öll halda áfram námi og þá lá jú leiðin yfirleitt til Reykjavíkursvæðisins. Það má nærri geta að ekki hefur það alltaf verið tekið út með sitjandi sældinni að stýra skóla í bæjarfélagi í örri þróun þar sem oft gat mikið gengið á. Óli Kr. Jónsson kennari, sem síðar tók við skólastjórninni þegar Frímann hætti störfum, hafði þetta að segja í sinni minningargrein:
„Þegar Frímann tók við stjórn Kópavogsskólans 1949 var skólinn ekki fjölmennur, en íbúum Kópavogs fjölgaði mjög ört á næstu árum og þá einnig nemendum í skólanum, svo ört að ekki hafðist undan að byggja. Voru því mikil þrengsli í skólanum mest alla skólastjórnartíð Frímanns, tví- og þrísett í hverja stofu og fyrstu árin vantaði einnig sérstofur og leikfimisal. Við slíkar aðstæður reyndi mjög á stjórnanda skólans, en allan vanda leysti Frímann, ekki með hávaða og látum heldur með röggsemi, prúðmennsku og ekki síst hlýlegu viðmóti, jafnt við starfslið sem nemendur. Hann var mjög vinsæll í starfi og var gott að leita til hans með vandamálin ekki síst fyrir unga og óreynda kennara eins og mig á mínum fyrstu árum hér.
Það kom í hlut Frímanns að móta starfshætti og venjur í Kópavogsskólanum og að því býr skólinn enn. Frímann vildi fyrst og fremst vera félagi og vinur síns fólks en ekki valdbjóðandi, vildi gagnkvæmt traust og samvinnu, og ég held að enginn hafi viljað bregðast trausti hans. Frímann var góður skólamaður og fylgdist vel með þróun skólamála. Hann fór nokkrar ferðir til útlanda til að kynna sér skólamál. Hann ferðaðist mikið um landið og var kunnugur sögu lands og þjóðar.”

Afi Frímann var hógvær að eðlisfari og lítið fyrir að trana sér fram en naut þess samt að stunda félagsstörf. Hann sat í stjórnum kennara- og ungmennafélaga, var í stjórn Norræna félagsins í Kópavogi og félagi í Rotary-klúbbi Kópavogs. Hann stofnaði stúku með öðrum á Rangárvöllum og sinnti lestrarfélögum og bókasöfnum. Hann hætti svo skólastjórn 1964 því hann vildi hætta skóla störfum á meðan hann ætti ennþá nokkurt starfsþrek til að sinna öðrum áhugamálum, ekki síst skriftum og bókbandi. Hann skrifaði nokkrar bækur handa börnum og unglingum, Hve glöð er vor æska (1944). Þegar sól vermir jörð (1950). Valdi villist í Reykjavík (1980) og Landið okkar, lesbók um landafræði Íslands (1969). Auk þess skrifaði hann frásagnir og minningargreinar í blöð og flutti útvarpserindi, að ógleymdri ævisögu sinni óútgefinni en kaflar úr henni hafa birst í tímaritinu Skildi.

Frímann gat verið grallari og fór stundum með kersknisvísur fyrir mig og aðra. Sumar voru örugglega frumsamdar en síðar þekkti ég að Káinn átti aðrar. Við minnumst líka bréfsins frá Danmörku til grannvaxinnar og léttfættrar ömmu minnar með utanáskriftinni:
Frú Málfríður Björnsdóttir Digra-
Nesvegi 38
Kópavogi.

Amma Málfríður kenndi oft börnum sem áttu við vanda að stríða og myndu líklega njóta sérkennslu nú á dögum. En heimilið var hennar helsti vettvangur og þangað þótti mér alltaf gott að koma, fyrst sem barn og unglingur og síðar með barnunga dóttur mína sem náði því miður ekki að kynnast langömmu sinni nógu vel því amma Málfríður lést árið 1977 eftir stutt veikindi. Og það var eins og afi Frímann bæri aldrei almennilega sitt barr eftir það.
Hann bjó einn um nokkurra ára skeið en dvaldist svo að Ási í Hveragerði í nokkur ár og lagðist að lokum inn á Landakotsspítala. Ég sat lengi hjá honum gamlárskvöldið 1987 og við ræddum um alla heima og geima. Hann sagði mér frá þungum draumförum sem hann túlkaði sem svo að dauðinn væri í nánd og kannski skynjaði hann það sem ég vildi EKKI segja honum, að við værum á leið til Lundúna með ungan son okkar í hjartaaðgerð þar sem líf lá við. Sú aðgerð tókst vel en það er önnur saga.
Frímann lést svo 16. janúar 1988 en skömmu fyrir jól hafði hann lofað dóttur sinni, móður minni, að bíða eftir henni þar til hún kæmi heim frá systur sinni í Bandaríkjunum. Við það stóð hann eins og annað sem hann lofaði, dó daginn eftir að hún kom heim.

Frímann Jónasson var einn þeirra sem byggðu upp þetta land og þessa þjóð. Nú er það undir okkur sporrekjendunum komið að sýna og sanna að allt það erfiði hafi ekki verið unnið fyrir gýg.

Matthías Kristiansen

                                                  (Stytt útgáfa greinarinnar birtist í Mbl. 30/11 2011).