„Marxist Hunter“

24.7.2011

Mikið hefur verið skrifað um meintar lífsskoðanir fjöldamorðingjans Breivik og allir þeir sem gætu fallið undir einhvern þann sama hóp og hann telur sig til, keppast við að sverja hann af sér. Og engin furða… Maður sem telur sig kristinn, íhaldsmann, þjóðernissinna, andstæðing íslams, stuðningsmann Ísraels og borgara sem ekki fær að koma máli sínu að í fjölmiðlum, á sér málsstað sem ótal margir geta samsamað sig við.

Málið snýst þó ekki um það, heldur kristallast í merkinu á öxl hans, „Marxist Hunter“. Þar sjáum við í hnotskurn þessa hættulegu stefnu að smætta andstæðinginn,  líta á hann sem gráan massa og þannig taka frá honum mennskuna – því þá er ekkert mál að gefa út veiðileyfi á hann. Með merki sínu segir Brevik: ,,Ef þú ert marxisti, ert þú réttdræpur (og ég ætla sjálfur að skilgreina hvort þú ert marxisti eða ekki)“!

Og þannig réðst hann að mörg hundruð ungmenna hópi, fulltrúum pólitískrar stefnu sem hann hataðist við, fulltrúum sem hann smættaði í eigin huga þar til fólkið varð afmennskt í hugarheimi hans, grár massi og réttdræpt.

Einn af fylgifiskum Netsins er sá að umræðuhópar verða oft býsna lokaðir, þar tala bara menn sem eru sammála og styðja hver annan í skoðunum sínum. Komi einhver með aðrar skoðanir og vilji rökræða er ráðist að honum með oddi og egg, persónulegum svívirðingum og alhæfingum, þar til hann hrökklast burt og lætur ekki sjá sig á þeim stað á ný. Hættan er auðvitað sú að með skorti á viðnámi í formi andstæðra skoðana gangi menn stöðugt lengra og að lokum grípi einhver veikgeðja sál í örvæntingu sinni til óyndisúrræða, oft til varnar einhverjum (jafnvel ímynduðum) málstað sem viðkomandi heldur að sér verði þakkað fyrir í framtíðinni. Líklega á þetta við um alla þá sem á undanförnum áratugum hafa framið stór hryðjuverk gegn almenningi í Bandaríkjunum og Evrópu, t.d. í Oklahoma, New York, Madríd, London, Moskvu og nú síðast í Ósló. En hvergi nema í Noregi var ráðist gegn ákveðnum skilgreindum pólitískum hópi – og það gerir þetta nýjasta ódæði einstakt.

(Sú aðferð að alhæfa um meinta andstæðinga sína er reyndar vel kunn á íslenskum bloggsíðum og enginn þarf að leita lengi til þess að sjá dæmi um hana. Hér er ein nokkuð lýsandi: ,,Eins og ég hef bent á annars staðar er kjarni allrar vinstri mennsku hatur á eigin umhverfi og þjóðfélagi, sem oft er réttlætt með hugmyndafræði og fögrum orðum.“ (VE).)

%d bloggurum líkar þetta: