Fuglahvísl og fanatík

23.7.2011

Búrfuglar AMX eru með böggum hildar og skrá hverja færsluna á fætur annarri til að reyna að ritskoða fjölmiðla heims sem kalla fjöldamorðingjann Breivik hægri öfgamann. Sú Bjarmalandsför er þó til lítils því maðurinn er það einmitt óumdeilanlega, hægri öfgamaður. Sjálfur skilgreindi hann sig sem conservative eða íhaldsmann á Fésbók (og reyndar kristinn líka), hann var lengi félagi í Fremskrittspartiet sem skilgreinir sig sem hægri flokk og ekki er hægt að kalla morðæði hans annað en öfgar. Bjánalegust er þó tilraun búrfuglanna að reyna að þýða hugtakið national socialist beint. Maðurinn er nefnilega ekki sagður nasisti heldur nýnasisti sem er allt annað mál og í allri pólitískri orðræðu erlendis er litið á þá söfnuði sem hægri öfgahópa.

Ég minnist þess að snemma á tíunda áratug var ég fenginn af RÚV til að þýða finnskan viðtalsþátt við alla norrænu forsætisráðherrana. Til þeirra var m.a. beint spurningum um uppgang nýnasista og hvort ástæða væri til að hafa áhyggjur af honum. Allir lýstu þeir yfir miklum áhyggjum af þeirri öfgastefnu, bæði á Norðurlöndum og meginlandinu; allir nema einn, sá íslenski. Hann sá enga hættu þar á ferð, taldi umræðuna óþarfa og þessa hreyfingu á engan hátt hættulega. Hverjir höfðu rétt fyrir sér í þeirri umræðu – og hverjir rangt?

Raunar virðast menn á Norðurlöndum stöðugt gera meira ráð fyrir því að Breivik hafi ekki verið einn á ferð og þá er fallin um sjálfa sig enn ein kenningin, sú um geðveikan einfara sem tryllist. En rannsókn á vitanlega eftir að leiða í ljós hvort fleiri áttu þátt að máli.

Allt að einu, sorg ríkir á Norðurlöndum yfir þessum voðaverkum og aðstandendur og vinir hinna myrtu eiga óskipta samúð okkar allra.

%d bloggurum líkar þetta: