Draumalandið Noregur

27.6.2011

Það er gaman að sjá Íslendinga nú hópum saman bera saman Ísland og Noreg og kemur Noregur oftast betur út úr þeim samanburði, ekki síst hvað tekjur varðar, en Norðmenn hafa auðvitað mun hærri meðaltekjur en við hér á skerinu. Ánægjulegt er hve margir horfa öfundaraugum austur til míns gamla föðurlands þar sem vinstrisinnaður verkamannaflokkur (sem nú hefur reyndar færst nær miðju) réði lögum og lofum um áratugaskeið og lagði grunn að miklu velferðarsamfélagi. Noregur er eitt af fáum ríkjum heims sem á fyrir skuldum sínum og gott betur (orðalag gert nákvæmara skv. ábendingu) og býr að gríðarmiklum sjóði olíugróða sem lagður hefur verið til hliðar. Allir vita hvernig fór á Íslandi eftir áratugastjórn stóra flokksins hér.

En það er ekki einhlítt að bera saman bensínverð og laun. Ódýrasti Ford Mondeo dísil kostar um 6,4 milljónir í Noregi en 4,3 hér og er það nokkuð dæmigerður verðmunur á bílum í minni flokkum, hann mun vera meiri þegar kemur að stærri bílum. Það þætti Íslendingum hátt bílverð.

Það kostar yfir 500 kr. skiptið í vegatollum að aka inn í Ósló eða líklega vel yfir 100.000 hr. á ársgrundvelli og líklegt er að dæmigerður Norðmaður verji á bilinu 150.000 til 200.000 í vegatolla á ári, enda allir stærri bæir girtir af og víða innheimt á þjóðvegum. Varla eru Íslendingar að biðja um það?

Kyndingarkostnaður húsa er auðvitað miklu hærri en hér og þar sem rafmagnsverð ræðst af framboði og eftirspurn getur það orðið umtalsverður kostnaðarliður og svona mætti lengi telja – en það er samt rétt sem ég hef lengi haldið fram, að Noregur er gott land að búa í.

Þess er skemmst að minnast að Verslunarráð lýsti frati á Norðurlönd hér um árið og sagði þau á engan hátt samanburðarhæf við Ísland. Það hefur reynst rétt – að vísu þó með öfugum formerkjum. Vonandi hefur hroki margra minnkað undanfarið gagnvart Noregi, þessari miklu vinaþjóð okkar í austri sem við eigum svo margt að þakka.

En hvað bensínverð varðar, held ég að við ættum að bera okkur saman við lönd með áþekku kaupmáttarstigi og ríkir á Íslandi, ekki við Noreg sem er í sérflokki með tekjur og kaupmátt. Ísland er einfaldlega ekki samanburðarhæft við bestu lönd heims – að sinni.

%d bloggurum líkar þetta: