Bensínverð og ferðalög innanlands

23.6.2011

Nú er mikið rætt um nauðsyn þess að lækka bensínverð svo Íslendingar hafi efni á að ferðast innanlands. Verðið er vissulega hátt en ólíklegt er að bensín lækki að neinu marki í innkaupsverði héðan í frá, einfaldlega vegna þess að stöðugt dýrara verður að ná í olíu í iður jarðar.

En hvað kostar vikuferð fjölskyldu hringinn í kringum Ísland? Sé gist hjá ættingjum eða vinum í tvær nætur en gisting keypt í fimm fyrir hjón með tvö börn er óraunhæft að gera ráð fyrir lægra verði á keypta gistinótt en 20.000,-. Sé farið út að borða einu sinni á dag þessa fimm daga gæti það kostað um 10.000 skiptið. Þótt aðeins sé litið á þessa þætti en ekki tekið tillit til aðgangseyris, sælgætiskaupa og annarra útgjalda, kostar áðurnefnd gisting því kr. 100.000, máltíðirnar 50.000 og bensínið um 50.000 eða alls um 200.000 fyrir vikuna. Af því verði er bensín 25% kostnaðarins og þótt skattar af því væru lækkaðir um helming myndi ferðalagið samt kosta hátt í 190.000 krónur. Það er því augljóst að þarna ráða sveiflur í bensínverði ekki úrslitum um ferðalög, aðrir þættir vega miklu þyngra.

Það er auðvitað hægt að taka með fjölmargar aðrar breytur, t.d. húsvagn, gistingu í tjaldi og að veiða sér til matar, en hér er reynt að hafa í huga hvernig Íslendingar ferðast erlendis og svo að yfirfæra það á Ísland.

%d bloggurum líkar þetta: