Vanþekking formanns á sögu krónunnar

11.6.2011

Í viðtali við Moggann í dag segir Bjarni Ben. formaður m.a.a eftir farandi:

„Lítil mynt eins og íslenska krónan kallar á þeim mun meiri aga og stöðugleika. Þess vegna á áherslan að vera á að efla efnahagslífið og þar er NÚVERANDI ríkisstjórn ekki á heimavelli.“ (Leturbreyting mín, MK).

Allt frá lokum síðari heimsstyrjaldar skömmu eftir lýðveldistökuna og fram á níunda áratug síðustu aldar var íslenskt efnahagslíf í viðjum hafta með sína litlu mynt. Þrátt fyrir erlenda styrki (t.d. Marshall-hjálpina) og gríðarlega sölu á afurðum sjávarútvegs sem mokað var upp héldu stjórnvöld harðri hendi um allt sem laut að innflutningi og gjaldeyrismálum og þar var ekki alltaf réttsýni í fyrirrúmi við ákvarðanatöku. Verðbólga var allan tímann mikil, mældist í tugum eða jafnvel hundruðum prósenta árlega og hvorki stjórnvöld né Seðlabanki (eftir að hann kom til sögunnar) fengu við neitt ráðið.

Upp úr 1990 var með samvinnu og fórnum verkalýðshreyfingar reynt að hemja verðbólguna, jafnframt því að opna samfélagið, koma því inn í nútímann og skapa eðlilegt viðskiptalíf. Stjórnvöld settu sér EITT mikilvægt takmark í hagstjórninni, að verðbólga færi ekki upp fyrir 2,5% á ársgrundvelli. Þeim árangri náðu ríkisstjórnir Davíðs, Halldórs og Geirs ALDREI þrátt fyrir hagstæðar ytri aðstæður megnið af tímanum. Sá árangur er að nást núna, þrátt fyrir miklu minni viðskipta- og gjaldeyrishöft en þekktust hér áður fyrr.

Það er sjálfsagt að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir það sem betur má fara en að sletta fram hálfsannleika umhugsunarlaust og án þekkingar á fortíðinni er engum sæmandi.

 

 


%d bloggurum líkar þetta: