Drykkjusýki og aðrir umdeildir sjúkdómar

7.6.2011

Það er undarlegt að verða vitni að því upphlaupi undir merkjum SÁÁ sem nú á sér stað. Samtök sem lengi hafa barist fyrir þeim skilningi að alkóhólismi sé sjúkdómur en ekki bara almennur aumingjaskapur, beita nú öllum sínum þunga til að ráðast gegn þeirri greiningu geðræns ástands sem hefur regnhlífarheitið ADHD og gera það sem allra tortryggilegast. Fá geðræn vandamál hafa verið rannsökuð jafn vel og ADHD/DAMP eða ofvirkni/vanvirkni og svo hefur auk þess tekist að finna nokkur lyf sem gagna vel gegn þessu ástandi. Sum þeirra hafa verið leyfð hér á landi og þar sem íslenskir læknar eru framarlega í flokki á heimsvísu urðu þessi lyf strax mikið notuð. Og einhverjir misnota þau auðvitað líka, því miður.

En þá er stokkið af stað með rógsherferð sem hittir alla þá sem þurfa að taka þessi lyf. Þeir eru margir á öllum aldri og ég þekki marga þeirra. Þegar talsmaður SÁA vogar sér að halda því fram að ADHD hafi ekki þekkst í fullorðnum fyrir 15 árum, talar hann annað hvort gegn betri vitund eða af yfirgripsmikilli vanþekkingu. Fólkið var til en því buðust engar lausnir. Það hefur breyst.

Um miðjan níunda áratug sýndu norrænar rannsóknir (ég man eftir finnskri, norskri og danskri rannsókn) að 50-80% fanga væru með greinileg einkenni ADHD. Það eitt ætti að staðfesta að vandinn er alvarlegur. Rítalín er hins vegar ekki eina lausnin heldur hluti af miklu stærri pakka, ef vel ætti að vera. Þar kemur einnig til atferlismeðferð, þjálfun í samskiptum og einbeitingu og margt annað sem fagfólk er fært um að veita.

Ég vona að SÁÁ-menn beini nú sjónum sínum að raunverulegri lyfjamisnotkun, þeirri sem hér hefur staðið áratugum saman og hófst löngu áður en rítalín kom til sögunnar, en ráðist ekki gegn sjúkdómsmeðferð sem er að minnsta kosti jafnvel dokumenteruð og meðferð á alkóhólisma sem sjúkdómi. Eða þora þeir kannski ekki í stóra vandann heldur ráðast á þann sem þeir álíta liggja best við höggi?

Að öðru leyti vísa ég á grein Grétars Sigurbergssonar í blöðum dagsins.

 

%d bloggurum líkar þetta: