Það er gaman að sjá Íslendinga nú hópum saman bera saman Ísland og Noreg og kemur Noregur oftast betur út úr þeim samanburði, ekki síst hvað tekjur varðar, en Norðmenn hafa auðvitað mun hærri meðaltekjur en við hér á skerinu. Ánægjulegt er hve margir horfa öfundaraugum austur til míns gamla föðurlands þar sem vinstrisinnaður verkamannaflokkur (sem nú hefur reyndar færst nær miðju) réði lögum og lofum um áratugaskeið og lagði grunn að miklu velferðarsamfélagi. Noregur er eitt af fáum ríkjum heims sem á fyrir skuldum sínum og gott betur (orðalag gert nákvæmara skv. ábendingu) og býr að gríðarmiklum sjóði olíugróða sem lagður hefur verið til hliðar. Allir vita hvernig fór á Íslandi eftir áratugastjórn stóra flokksins hér.

En það er ekki einhlítt að bera saman bensínverð og laun. Ódýrasti Ford Mondeo dísil kostar um 6,4 milljónir í Noregi en 4,3 hér og er það nokkuð dæmigerður verðmunur á bílum í minni flokkum, hann mun vera meiri þegar kemur að stærri bílum. Það þætti Íslendingum hátt bílverð.

Það kostar yfir 500 kr. skiptið í vegatollum að aka inn í Ósló eða líklega vel yfir 100.000 hr. á ársgrundvelli og líklegt er að dæmigerður Norðmaður verji á bilinu 150.000 til 200.000 í vegatolla á ári, enda allir stærri bæir girtir af og víða innheimt á þjóðvegum. Varla eru Íslendingar að biðja um það?

Kyndingarkostnaður húsa er auðvitað miklu hærri en hér og þar sem rafmagnsverð ræðst af framboði og eftirspurn getur það orðið umtalsverður kostnaðarliður og svona mætti lengi telja – en það er samt rétt sem ég hef lengi haldið fram, að Noregur er gott land að búa í.

Þess er skemmst að minnast að Verslunarráð lýsti frati á Norðurlönd hér um árið og sagði þau á engan hátt samanburðarhæf við Ísland. Það hefur reynst rétt – að vísu þó með öfugum formerkjum. Vonandi hefur hroki margra minnkað undanfarið gagnvart Noregi, þessari miklu vinaþjóð okkar í austri sem við eigum svo margt að þakka.

En hvað bensínverð varðar, held ég að við ættum að bera okkur saman við lönd með áþekku kaupmáttarstigi og ríkir á Íslandi, ekki við Noreg sem er í sérflokki með tekjur og kaupmátt. Ísland er einfaldlega ekki samanburðarhæft við bestu lönd heims – að sinni.

Nú er mikið rætt um nauðsyn þess að lækka bensínverð svo Íslendingar hafi efni á að ferðast innanlands. Verðið er vissulega hátt en ólíklegt er að bensín lækki að neinu marki í innkaupsverði héðan í frá, einfaldlega vegna þess að stöðugt dýrara verður að ná í olíu í iður jarðar.

En hvað kostar vikuferð fjölskyldu hringinn í kringum Ísland? Sé gist hjá ættingjum eða vinum í tvær nætur en gisting keypt í fimm fyrir hjón með tvö börn er óraunhæft að gera ráð fyrir lægra verði á keypta gistinótt en 20.000,-. Sé farið út að borða einu sinni á dag þessa fimm daga gæti það kostað um 10.000 skiptið. Þótt aðeins sé litið á þessa þætti en ekki tekið tillit til aðgangseyris, sælgætiskaupa og annarra útgjalda, kostar áðurnefnd gisting því kr. 100.000, máltíðirnar 50.000 og bensínið um 50.000 eða alls um 200.000 fyrir vikuna. Af því verði er bensín 25% kostnaðarins og þótt skattar af því væru lækkaðir um helming myndi ferðalagið samt kosta hátt í 190.000 krónur. Það er því augljóst að þarna ráða sveiflur í bensínverði ekki úrslitum um ferðalög, aðrir þættir vega miklu þyngra.

Það er auðvitað hægt að taka með fjölmargar aðrar breytur, t.d. húsvagn, gistingu í tjaldi og að veiða sér til matar, en hér er reynt að hafa í huga hvernig Íslendingar ferðast erlendis og svo að yfirfæra það á Ísland.

… er fullyrðing margra og það er reyndar besta röksemdin sem fram hefur kom fyrir því að draga ábyrgan ráðherra fyrir Landsdóm. Seðlabankastjóri varaði forsætisráðherra við en það var hunsað. Þess vegna er nú réttað í málinu að frumkvæði Bjarna Benediktssonar (var einhver að tala um kaldhæðni?)

Í viðtali við Moggann í dag segir Bjarni Ben. formaður m.a.a eftir farandi:

„Lítil mynt eins og íslenska krónan kallar á þeim mun meiri aga og stöðugleika. Þess vegna á áherslan að vera á að efla efnahagslífið og þar er NÚVERANDI ríkisstjórn ekki á heimavelli.“ (Leturbreyting mín, MK).

Allt frá lokum síðari heimsstyrjaldar skömmu eftir lýðveldistökuna og fram á níunda áratug síðustu aldar var íslenskt efnahagslíf í viðjum hafta með sína litlu mynt. Þrátt fyrir erlenda styrki (t.d. Marshall-hjálpina) og gríðarlega sölu á afurðum sjávarútvegs sem mokað var upp héldu stjórnvöld harðri hendi um allt sem laut að innflutningi og gjaldeyrismálum og þar var ekki alltaf réttsýni í fyrirrúmi við ákvarðanatöku. Verðbólga var allan tímann mikil, mældist í tugum eða jafnvel hundruðum prósenta árlega og hvorki stjórnvöld né Seðlabanki (eftir að hann kom til sögunnar) fengu við neitt ráðið.

Upp úr 1990 var með samvinnu og fórnum verkalýðshreyfingar reynt að hemja verðbólguna, jafnframt því að opna samfélagið, koma því inn í nútímann og skapa eðlilegt viðskiptalíf. Stjórnvöld settu sér EITT mikilvægt takmark í hagstjórninni, að verðbólga færi ekki upp fyrir 2,5% á ársgrundvelli. Þeim árangri náðu ríkisstjórnir Davíðs, Halldórs og Geirs ALDREI þrátt fyrir hagstæðar ytri aðstæður megnið af tímanum. Sá árangur er að nást núna, þrátt fyrir miklu minni viðskipta- og gjaldeyrishöft en þekktust hér áður fyrr.

Það er sjálfsagt að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir það sem betur má fara en að sletta fram hálfsannleika umhugsunarlaust og án þekkingar á fortíðinni er engum sæmandi.

 

 


Það er undarlegt að verða vitni að því upphlaupi undir merkjum SÁÁ sem nú á sér stað. Samtök sem lengi hafa barist fyrir þeim skilningi að alkóhólismi sé sjúkdómur en ekki bara almennur aumingjaskapur, beita nú öllum sínum þunga til að ráðast gegn þeirri greiningu geðræns ástands sem hefur regnhlífarheitið ADHD og gera það sem allra tortryggilegast. Fá geðræn vandamál hafa verið rannsökuð jafn vel og ADHD/DAMP eða ofvirkni/vanvirkni og svo hefur auk þess tekist að finna nokkur lyf sem gagna vel gegn þessu ástandi. Sum þeirra hafa verið leyfð hér á landi og þar sem íslenskir læknar eru framarlega í flokki á heimsvísu urðu þessi lyf strax mikið notuð. Og einhverjir misnota þau auðvitað líka, því miður.

En þá er stokkið af stað með rógsherferð sem hittir alla þá sem þurfa að taka þessi lyf. Þeir eru margir á öllum aldri og ég þekki marga þeirra. Þegar talsmaður SÁA vogar sér að halda því fram að ADHD hafi ekki þekkst í fullorðnum fyrir 15 árum, talar hann annað hvort gegn betri vitund eða af yfirgripsmikilli vanþekkingu. Fólkið var til en því buðust engar lausnir. Það hefur breyst.

Um miðjan níunda áratug sýndu norrænar rannsóknir (ég man eftir finnskri, norskri og danskri rannsókn) að 50-80% fanga væru með greinileg einkenni ADHD. Það eitt ætti að staðfesta að vandinn er alvarlegur. Rítalín er hins vegar ekki eina lausnin heldur hluti af miklu stærri pakka, ef vel ætti að vera. Þar kemur einnig til atferlismeðferð, þjálfun í samskiptum og einbeitingu og margt annað sem fagfólk er fært um að veita.

Ég vona að SÁÁ-menn beini nú sjónum sínum að raunverulegri lyfjamisnotkun, þeirri sem hér hefur staðið áratugum saman og hófst löngu áður en rítalín kom til sögunnar, en ráðist ekki gegn sjúkdómsmeðferð sem er að minnsta kosti jafnvel dokumenteruð og meðferð á alkóhólisma sem sjúkdómi. Eða þora þeir kannski ekki í stóra vandann heldur ráðast á þann sem þeir álíta liggja best við höggi?

Að öðru leyti vísa ég á grein Grétars Sigurbergssonar í blöðum dagsins.