A) Þrjú sumur í kringum 1970 var ég afleysingamaður á drykkjumannahælinu á Gunnarsholti eins og það hét þá. Vistmenn voru um 40 hverju sinni. Eitt sumarið var tekin ein umfangsmesta könnun á högum fíkla sem þá hafði verið tekin á landinu og féll það í minn hlut að spyrja vistmenn. Ég held ég brjóti engan trúnað nú 40 árum síðar þegar ég segi að niðurstöður sýndu að rúmlega helmingur þeirra ,,gekk á“ læknadópi þegar þeir voru á götunni. Þeir sögðust ekki eiga í neinum vandræðum með að finna lækna sem vildu ávísa, sögðu jafnvel suma þeirra sjálfa fíkla. Þessar niðurstöður fóru í bæinn en ekki veit ég hvað um þær varð og ljóst a.m.k. að þessar upplýsingar breyttu engu um eftirlit með lyfjaávísunum.

B) Um miðjan tíunda áratug áttum við nágranna- og kunningjakonu sem bruddi pillur eins og henni væri borgað fyrir það, auk þess sem hún drakk, því hún var í raun vímufíkill eins og svo margir eru. Einhverju sinni var henni nóg boðið af sljóleikanum og vímunni, ákvað að fara í meðferð og sýndi konu minni öll þau vímugefandi lyf sem hún átti. Fylltu umbúðirnar Hagkaupspoka. Konu minni blöskraði svo magnið að hún kannaði hverjir höfðu ávísað og reyndist þetta vera lítill hópur lækna sem jafnvel ávísuðu allir stórum skömmtum af þrælsterkum lyfjum sama daginn. Hún hringdi í landlækni, tilkynnti þetta og greindi frá nöfnum og magni. Ekki virtist sem sú tilkynning hefði neinu skipt því kunningjakonan kom úr meðferð, hélt sér allsgáðri um nokkra hríð en var svo fljótlega komin á kaf í pillurnar á ný og staukar með læknadópi um alla íbúð, jafn mikið og það sem fargað hafði verið fyrir meðferð.

Þessar tvær sögur, til viðbótar nýjustu umfjöllun, segja a.m.k. mér að það virðist vera takmarkaður áhugi fyrir hendi að leysa þennan vanda sem verður æ alvarlegri eftir því sem yngra og yngra fólk ánetjast. Það er fáránlegt að eftir því sem lyf verða betri og markvissari og vitneskja eykst um notkun og áhrif, skuli yfirvöld leyfa sér að láta lítinn hóp vanhæfra lækna (sem þau geta komist að á hálftíma hverjir eru) eyðileggja stóra hópa fólks, færa samfélaginu ómældan kostnað og aðstandendum sársauka og þar að auki að stórskaða orðspor kollega sinna því á meðan ekki er tekið á þeim seku, liggja allir undir grun.