Tímabilið frá október 2008 hefur reynst allri þjóðinni erfitt og margir hafa misst mikið. Andlegt álag hefur verið gríðarlegt á marga, bæði einstaklinga og fjölskyldur, og ýmsir munu aldrei jafna sig, svo ekki sé nú minnst á þá sem stytt hafa fyrir sér. Hvað verst hefur þó líklega óvissan verið hjá þeim sem tóku gengistryggð lán hjá bönkum sem á sama tíma tóku stöðu gegn krónunni og þar með lántakendum.

Í ofanálag hefur komið í ljós að þau lán bankanna sem mestu álagi hafa valdið á einstaklinga og heimili voru í grundvallaratriðum ólögmæt. Ekki er hægt að segja að bankarnir hafi verið grandalausir gagnvart því vegna þess að ýmsir vöruðu við einmitt þessu strax í upphafi, jafnvel fulltrúar bankanna sjálfra.

Það er því líklegt að skapast hafi skaðabótaskylda til handa þeim sem hafa nú orðið að bíða í hvað mestri óvissu í allt að tvö ár, ef ekki lögfræðileg samkvæmt strangasta skilningi þá alla vega siðferðileg ábyrgðarskylda. Hafa ber í huga, í leit að viðunandi lausn fyrir alla aðila á þessu ótrúlega máli, að bankakerfið hafði með þegjandi samþykki framkvæmdavalds og Alþingis lengi veitt  lán á ólöglegum forsendum.

Mat þetta verður erfitt en hver segir að það eigi að vera einfalt að leysa flókin mál?

Ég tek það fram að ég er ekki sjálfur með nein gengistryggð lán.