Þátttaka Íslendinga í slagarakeppninni ,,miklu“ hefur alveg frá upphafi borið öll sömu einkenni minnimáttarkenndar og þjóðernishroka og var lýsandi fyrir útrásina svokölluðu. Það er ætt af stað með stórkarlalegum yfirlýsingum um yfirburði og alveg einstök gæði alls þess sem íslenskt er, reynt að gera sem minnst úr þeim útlendingum sem kappi er att við en hver sú smjaðurkennda orðræða lapin upp sem fyrirfinnst í erlendum fjölmiðlum. Komi fram gagnrýniraddir á íslensku snilldina keppast íslenskir um að andmæla og niðurlægja hvern þann sem þannig vogar sér að tala. Það er ekki fyrr en í ljós kemur að engin innistæða var fyrir öllum meirimáttarstælunum að menn byrja að hugsa sig um. Og það er dapurlegt að sjá t.d. útrásarvíkingagrillarann Sigmar falla lóðbeint í þennan pytt hroka og staurblindrar trúar á íslensku ,,afburðina“  sem allan tímann lá ljóst fyrir að ekki voru til staðar.

Er það kannski eðli kotungaþjóðar að treysta sér ekki til þess að mæta fólki á jafningjagrundvelli heldur verða alltaf að blása sig út og þykjast vera öllum öðrum betri?

Það er þó að minnsta kosti augljóst að nú fá Íslendingar minnst tvö ár til að finna hentugan stað til halda keppnina hér á landi.