Margir tala nú um að aðrir eigi að axla ábyrgð – en samt er eins og enginn taki það til sín. Því verður að skilgreina þá ábyrgð sem axla þarf á hruninu áður en sú þrautaganga getur hafist af viti.

Á 100 árum tókst Íslendingum að komast úr sæti fátækustu þjóðar Evrópu í hóp þeirra allra ríkustu. Þá tóku tveir ríkisstjórnarflokkar (pólitíska ábyrgðin) sig saman og handvöldu bankakaupendur með réttan pólitískan lit sem breyttu þeim í gríðarlegar og ósjálfbærar fjárplógsmyllur (rekstrarlega ábyrgðin) án þess að til þess bær yfirvöld, Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn og fagráðherrar (eftirlitsábyrgðin) tækju í taumana. Á sama tíma tóku forsetinn og forkólfar ríkisstjórnarinnar það að sér að verða klappstýrur og kynnar fjárplógsmannanna erlendis (siðferðislega ábyrgðin).

Með þetta í huga ætti að verða auðveldara að skilgreina ábyrgðina og hverjir bera hana.