SI og vantrúin

4.3.2010

Fáir, fátækir og smáir. – Í hugum margra er þetta sýnin á Ísland og íslenskt atvinnulíf. Nú síðast hafa Samtök iðnaðarins tekið undir þennan söng og forsvarsmenn þess fullyrða að Ísland sé hrunið nema með tilkomu meiri stóriðju.

Hvar eru nú fullyrðingarnar um menntaða þjóð og framsækna? Auðvitað eru möguleikarnir fleiri, annað hvort væri nú. Hér á landi eru þegar risnar verksmiðjur sem framleiða hráefni í neytendavarning og hluti af öllu tagi, álverksmiðjur fyrir bæði sunnan og austan. Og það sem meira er, íslensk stjórnvöld lýstu því yfir í samstarfi við álframleiðendurna að stutt skyldi við íslenskan iðnað. Einfalt mál er að flytja þetta úrvals hráefni og valsa álplötur, steypa álmuni af öllu tagi, búa til álpappír í risarúllum sem síðan eru skornar niður í neytendapakkningar og sendar um heim allan; leikföng, bílavarahlutir, farsíma- og fartölvuumgjarðir og ótalmargir aðrir möguleikar.

Ég hvet framsækna karla og konur (og jafnvel líka stólahitarana hjá SI) til þess að móta hugmyndir um framleiðslu úr áli og knýja yfirvöld til samstarfs. Um allt land er húsnæði á lausu og það er ekki slæmur kostur í landi sem á erfitt með að afla erlendra lána. Stjórnvöld lofuðu því fyrir löngu að stuðla að þessu og það er kominn tími til að láta þau standa við stóru orðin. Það dapurlega er hins vegar að eina fyrirtækið á Íslandi sem steypti hluti úr áli, pönnuverksmiðja á Suðurlandi, keypti brotaál að utan því íslenska álið var of dýrt. Nú er sú verksmiðja komin til Eystrasalts.