Norska þingið tók haustið 1992 ákvörðun um að ganga til samninga við ESB um aðild. Næsta skref var að skilgreina samningsmarkmið og sætta ólíkar skoðanir innanlands áður en viðræður við ESB hófust. Samningar voru undirritaðir sumarið 1994 og þá hófst kynning fyrir þjóðinni sem hafnaði þeim í allsherjar atkvæðagreiðslu  haustið 1994, tveimur árum eftir að ákveðið var  að sækja um.

Fátt bendir til að möguleg umsókn Íslendinga verði mikið skemur í undirbúningi. Ég legg til að hörðustu áhugamenn, bæði með og á móti, andi með nefinu. Það er um nóg annað að hugsa á þjóðarheimilinu.

Samfylkingin er nú stærsti flokkur landsins en íslenskan hefur lengi átt í vandræðum með að lýsa árangri eins og þeim sem Borgarahreyfingin hefur náð á nokkrum vikum. Varla er hægt að kalla hana sigurvegara kosninganna en við eigum okkar ágætu forsetafrú að þakka orð sem lýsir stöðunni vel. Borgarahreyfingin er stórasti flokkur Íslands!

Ekki er ólíklegt að ungt fólk hugsi sér gott til glóðarinnar í kvöld að skella sér út á lífið. Þá ber að benda ungum körlum á það sem m.a. stendur í Fimmtu Mósebók biblíunnar:

4. 14Þá bauð Drottinn mér að kenna yður lög og ákvæði, svo að þér gætuð breytt eftir þeim í því landi, er þér haldið nú yfir til, til þess að taka það til eignar.

Um foreldravaldið

21. 18Ef maður á þrjóskan son og ódælan, sem eigi vill hlýða föður sínum og móður, og hann hlýðnast þeim ekki að heldur, þótt þau hirti hann, 19þá skal faðir hans og móðir taka hann og fara með hann til öldunga borgar hans, að borgarhliðinu, þar sem hann á heima, 20og segja við öldunga borgar hans: „Þessi sonur okkar er þrjóskur og ódæll og vill ekki hlýða okkur, hann er svallari og drykkjurútur.“ 21Skulu þá allir borgarmenn lemja hann grjóti til bana.

Sjálfstæðismenn ræða gjarnan um Kjartan Gunnarsson sem Hinn Vammlausa, manninn sem alltaf má treysta. Hann sat sem framkvæmdastjóri Flokksins um langa hríð og var jafnframt um hríð formaður einkavæðingarnefndar sem seldi Björgólfunum Landsbankans. Síðan sat hann í stjórn banka þeirra, lengi sem formaður og varaformaður bankastjórnar. Hann var sem sagt beggja vegna borðsins þegar millurnar 25 (í þetta sinni) flugu yfir það (eða undir), andartaki áður en ný lög tóku gildi sem tryggðu flokknum mjög hækkaðan opinberan stuðning gegn auknu gagnsæi í fjárframlögum utan út bæ.
Styrkur Landsbankans er í raun miklu alvarlegra mál en styrkurinn fra FL því þar voru þó bara Baugsmenn á ferð, góðir Flokksmenn og styrktaraðilar hans til margra ára.
Það er alveg sama á hvaða mælikvarða þetta mál er skoðað, það er svo dæmigerð gróðrarstía spillingar að enginn getur neitað því. Þegar við bætist svo ýmis hálfsannleikur nánustu samstarfsmanna Kjartans, sem smám saman er verið að fletta ofan af, er ljóst að uppgjör er óumflýjanlegt í Flokknum. Það næst ekki fyrir þessar kosningar.

Ég er forviða á því að andstæðingar ESB skuli telja það skynsamlegt að boða til tvöfaldrar atkvæðagreiðslu um aðildarumsókn og aðild að  ESB. Ástæðan er einföld, þjóðarsálin.
Íslendingar eru þrjóskir og ógjarnir á að skipta um skoðun. Takist fylgismönnum ESB að leggja fram nógu sannfærandi rök um að ganga skuli til samninga við ESB, án þess að vita hvað er í boði með aðild, eru miklar líkur á því að sú sannfæring endist fram yfir samningaviðræðurnar og að þjóðin samþykki aðild, burtséð frá því sem hefur náðst að semja um.
Viðsemjendur okkar í þessum viðræðum eru heldur engir kjánar og myndu gera sér grein fyrir þessari staðreynd. Þess vegna hafa aðrar þjóðir ekki reynt þessa leið.

Það er því aðeins um tvennt að ræða vegna ESB, að hafna aðild og snúa sér að öðru eða sækja um aðild og kjósa svo um þá samninga sem nást, náist þeir þá. Þessa kosti eiga stjórnmálaflokkarnir að bjóða þjóðinni,  ekki aulalegar smérklípur með frestunaráráttu.