Í ársbyrjun 2003 stóð þetta í Mbl:

,,Um lausafjárstöðu eða greiðslugetu Landsvirkjunar segir Standard & Poor’s m.a.: „Lausafjárstaða Landsvirkjunar er út af fyrir sig fullnægjandi, en fyrirtækið stendur frammi fyrir gjaldmiðlaáhættu. Um miðjan nóvember 2002 nam lausafé 25 milljónum dollara, eða um 15% af árstekjum.“ Þá segir að Landsvirkjun hafi á sama tíma samið um rétt til að taka 160 milljóna dollara lán, með gjalddaga eftir meira en ár. „Gjalddagar lána eru vel dreifðir og skammtímaskuldir eru lágar.“
Einnig segir:
,,Aukið frjálsræði í geiranum og endurskipulagning virðast ætla að hafa takmörkuð neikvæð eða hlutlaus áhrif á lánshæfi fyrirtækisins. Ef aðeins er litið á Landsvirkjun eina, er lánshæfi hennar BBB [e. „barely investment grade“], en án einkavæðingar eða afnáms ábyrgða er einkunnin í samræmi við lánshæfismat ríkisins.“

Svo var farið í Kárahnjúkavirkjun og hvernig er staðan nú? Á vefsetri RÚV stendur þetta:

,Landsvirkjun getur staðið við skuldbindingar sínar til loka næsta árs, en óvíst er með framhaldið, jafnvel þótt ekkert verði fjárfest á næstu árum. Lánshæfismat fyrirtækisins hefur lækkað og erlendis er efast um að ríkissjóður geti ábyrgst skuldir fyrirtækisins. Erlendir fjárfestar og lánshæfisfyrirtæki eru þegar farin að inna stjórnendur fyrirtækisins eftir því hvernig það verði leyst. … Þótt Landsvirkjun taki ekki á sig nýjar skuldbindingar og ráðist ekki í ný verkefni, þá þurfi fyrirtækið samt á nýrri fjármögnun að halda fyrir árin 2011 og 2012 – óvíst sé hvaðan það fé komi. …  Landsvirkjun hefur fjárfest stöðugt undanfarin þrettán ár, allar þær framkvæmdir hafa verið fjármagnaðar með rekstrarfé og lánum. “

Það hefði kannski verið skynsamlegt að hlusta á hagfræðingana – bæði þá og sem þorðu að gagnrýna og sem mest var gert lítið úr – á árunum þegar deilt var um hvort hefja ætti gerð Kárahnjúkavirkjunar. Ljóst er að ástandið nú er verra en jafnvel svartsýnustu spár gerðu ráð fyrir. Svo ekki sé nú minnst á sminkuðu sólskinsáætlanirnar sem Landsvirkjun lagði fram.

Og álverðið sem átti að tryggja hagnað af virkjuninni tröllvöxnu? Það er nú um þriðjungur þess sem það hefur hæst verið og er það í samræmi við spár manna sem ákveðið var að hunsa þegar virkjunin var í vinnslu.
,,Heimsmarkaðsverð á áli heldur áfram að lækka og var við lokun markaða LME í gær á 1.296 dollara tonnið. Er þetta lægsta verð sem sést hefur á áli síðan í ársbyrjun 1999. Þá fór verðið reyndar lægst í um 1.150 dollara tonnið í lok febrúar.“ (Tíðarandinn, 24. febrúar 2009).

Norðmenn eru að endurskoða lánamál í landi sínu og reikna með því að stýrivextir þar fari brátt niður í 1,25% og að húsnæðislán muni þá bera 2,5% vexti (og enga verðtryggingu, þess þarf ekki í þróuðum löndum með alvöru gjaldmiðil). Eia var vi der!