Áskell Másson og ORA

18.2.2009

Til hamingju, Áskell, það var svo sannarlega kominn tími til þess að þú yrðir heiðraður fyrir þitt ómælda framlag til íslenskrar nútímatónlistar.

Áskell hlaut verðlaunin fyrir verk sitt ORA sem var frumflutt í Síbelíusarhöllinni í Lahti í Finnlandi í maí í vor. Hér er stutt grein sem birtist í Huvudstadsbladet í Finnlandi í tilefni af því.

Frumflutningur á nýju verki eftir Áskel Másson

Vakti mikla athygli í Finnlandi

Miðvikudaginn 7. maí sl. var verkið ORA eftir Áskel Másson frumflutt í Síbelíusarhöllinni í Lahti í Finnlandi. Eftirfarandi er sá hluti úr gagnrýni um tónleikana sem varðar verk Áskels:

SEFJANDI ÁSLÁTTARHRYNJANDI

SINFÓNÍUHLJÓMSVEITIN Í LAHTI

Stjórnandi: Osmo Vänskä

Einleikur: Kroumata.

Verk eftir Áskel Másson og Bruckner.

Síbelíusarhöllinni 7.5.08

Sinfóníuhljómsveitin í Lahti hefur mjög látið til sín taka við flutning og túlkun á nútímatónlist og náð afbragðsgóðum árangri á því sviði eins og til dæmis sést á frumflutningi hennar á fjölmörgum verkum eftir hallartónskáldið Kalevi Aho. Að þessu sinni var þó frumflutt af mikilli snilli slagverkstónverkið ORA eftir Áskel Másson.

Íslendingurinn Áskell Másson (f. 1953) hefur lengi verið í hópi áhugaverðustu tónskálda Norðurlanda þótt honum hafi hvergi nærri hlotnast sú athygli á heimsvísu sem hann á skilið. ORA á það svo sameiginlegt með mörgum fyrri verkum Áskels að vera hvorki bundið af kreddum módernismans né yfirleitt neinna annarra –isma.

Áskell nýtir sér tvær íslenskar þjóðvísur á einkar frumlegan og nær dáleiðandi fjölbreyttan hátt. Stundum bregður þeim fyrir í ýmsum umbreyttum myndum en svo birtast þær líka í öllum sínum hráa mikilfengleik.

Áskell er sjálfur þaulreyndur slagverksleikari og veit hvernig á að beita hljóðfærinu en einkum hefur hann þó gert sér grein fyrir að því er fyrst og fremst ætlað að miðla hrynjandi.

Sefjandi hrynmynstur eru helsta einkenni ORA en fínu blæbrigðin eru líka í áberandi hlutverki. Slagverkssextettinn leikur á margs konar ásláttarhljóðfæri sem komið er fyrir í einskonar „eyju” í hafsjó hljóðfæranna og þaðan berst bæði einleikur hans og samleikur með hljómsveitinni.

Eina athugasemd er þó hægt að gera við þetta öfluga, djúphygla og einkar skemmtilega tónverk. Það er aðeins 20 mínútna langt en mætti vera miklu lengra. Áskell hefði vel getað sótt lengra inn í leikrænar andstæður þessa tónheims, efnið gefur svo sannarlega kost á því.

Kroumata bregst ekki

Verkið var pantað af Osmo Vänskä í samstarfi við slagverkssextettinn Kroumata sem lék af einstakri snilld. Það er ekki annað hægt en að taka ofan fyrir einstökum hæfileikum þeirra til þess að tileinka sér svo fjölbreytt tjáningarform innan tónlistarinnar sem raun ber vitni.

MATS LILJEROOS

kultur@hbl.fi

%d bloggurum líkar þetta: