Hvalveiðar og bridge

12.2.2009

Ég hafði einu sinni samkennara sem spilaði stundum bridge við okkur í frímínútum. Kolleginn átti stundum mjög djarfar og óvæntar lokasagnir á haldlítil spil og sagði þá að jafnaði um leið og viðkomandi stóð upp og hljóp fram, gjarnan í blálokin á frímínútunum: ,,Þrjú grönd og þú spilar það!“ Og þá var ekki um neitt annað að ræða en leggja sín eigin spil niður sem blindan, færa sig og taka slaginn. Oft urðu þeir ekki nógu margir.

Það er sjálfsagt mál að því verði mjög haldið á lofti, bæði innan lands og utan, hver það var sem upp á sitt eindæmi tók þá umdeildu ákvörðun að leyfa hvalveiðar, hver sagði ,,Þrjú grönd og þú spilar það!“. Oft taka ríkisstjórnir sameiginlegar ákvarðanir sem þær þurfa að standa við og fylgja eftir en því er aldeilis ekki að heilsa í þessu tilviki. Menn geta svo hrósað Einari eða gagnrýnt, allt eftir því hver afstaða manna er, en aðalatriðið er að rökræðunni sé beint að þeim sem tók ákvörðun einn síns liðs. Þeir sem eiga að spila úr slæmri stöðu verða svo bara að gera sitt besta.

2 Responses to “Hvalveiðar og bridge”

  1. Gísli Says:

    Er þessi ákvörðun á huldu?

  2. Matthías Says:

    Þeir eru ýmsir, huldumennirnir í pólitíkinni, og þeir hafa margir sitthvað á prjónunum.


Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: