Rithöfundar og listamannalaun

9.2.2009

Enn einu sinni sprettur fram umræða um laun rithöfunda. Tíundaðar eru upplýsingar um þá sem þegið hafa rithöfundalaun undanfarin ár og nákvæmlega tilgreint fyrir hve langan tíma launin hafa verið greidd. Undir má greina hneykslunartón yfir þessum útgjöldum (og jafnvel pólitíska undirtóna: Sjá roðann í fjáraustri).

Mér er minnisstætt að Kurt Vonnegut sagði í heimsókn sinni til Íslands undir lok níunda áratugar að í Bandaríkjunum lifðu um 300 rithöfundar af ritstörfum eingöngu. – Yfirfært á Ísland jafngildir það 0,3 rithöfundi. – Hinir yrðu að framfleyta sér á greinaskrifum og íhlaupaverkum fyrir tímarit og fyrirtæki.

Mér hugnast íslenska kerfið betur og þegar listinn yfir þá sem mest laun hafa þegið kemur í ljós að þetta eru flestir vinsælustu höfundar landsins og líklega flestir þeirra bestu nú um stundir. Þetta er svona 10-15 manna hópur og yfirfært á bandarískar aðstæður þýðir það um 10 – 15.000 rithöfunda. Ég held að sú þjóð myndi verða drjúg með að eiga svo marga höfunda í fremstu röð.

Ritlaun rithöfunda eru góður kostur því þau færa þjóðinni ómælda gleði og auka lífsgildi okkar allra. Bara ef það ætti við um allt það fé sem rennur úr opinberum sjóðum.

%d bloggurum líkar þetta: