Í sjónvarpsþætti á erlendri stöð í kvöld var rætt við hjón sem höfðu verið gift í 57 ár. Aðspurð um hvers vegna þau hefðu haldið svo lengi saman svaraði konan:  «Tvennt skiptir mestu, umburðarlyndi og ákveðin heyrnardeyfa. » Þá bætti karlinn við: «Áfengi hjálpar líka til!»

Fyrrverandi dómsmálaráðherra var lengi að finna mann í embætti sérstaks saksóknara. Loks í upphafi janúar fannst maður sem var til í að taka að sér starfið. Embætti ráðherra hafði sem sagt nokkrar vikur til að undirbúa starfsaðstöðu saksóknara og hefði mátt ætla að allt væri klárt þegar hann kæmi til starfa.

En það var öðru nær. Á sama tíma og Björn var upptekinn við að svara öllu og öllum á blogginu sínu og gagnrýna þann hluta þjóðarinnar sem heimtaði að byrjað væri á uppgjörinu við þá sem komu þjóðinni í þessa klípu, lét hann algjörlega vera að undirbúa starfsaðstöðu nýja saksóknarans. Afleiðingin var sú að viku eftir að nýi saksóknarinn tók við starfi var ekki ekki búið að gera húsnæðið klárt og tengja tölvur. Auðvitað átti allt að standa tilbúið, tölvur og gögn til reiðu og menn í startholunum.

Þessi haardering líkist því einna helst að það hafi átt að draga sem lengst að hefja aðgerðir – því líkt og í pólitík skiptir vika miklu máli í glæparannsóknum.

Enron-menn voru hins vegar leiddir út í handjárnum strax á öðrum degi.