Við Gísli höfum nú þýtt 60 mínútur til skiptis árum saman. Í kvöld gafst mér þó í fyrsta sinn tækifæri til þess að sjá þáttinn í guðs eigin landi og það var alveg augljóst af auglýsingunum að þetta sjónvarpsefni er ekki stílað upp á unga fólkið. Þarna ægði saman auglýsingum um 350 palljeppa, kynningu á lyfjum vegna blöðruhálskirtils og örra næturferða á salerni, lyfjum gegn blóðfitu og streitu sem orsakar hjartaáföll, trefjaríku fæði til að bæta meltinguna, tilboðum um ristilskoðun með hótelgistingu ferðum á fjarlægar slóðir og viagra. Mér sýnst einboðið að ekki líði á löngu uns síðasta áhorfandinn hafi fallið frá og við Gísli verðum að snúa okkur að einhverju öðru.

Nú hafa yfirvöld loksins brugðist við eins og þeim ber að gera þegar kreppir að á atvinnumarkaði, að útvega fólki vinnu með því að byggja hús og brýr og leggja vegi og önnur þjóðþrifaverk.

En þá er brýnt að hafa í huga að yfirvinna á alls ekki að vera í boði því hún rænir bara annað fólk vinnu. Það er almennt séð rangt að taka yfirvinnu í atvinnuleysi (þótt það geti auðvitað gerst hjá ýmsum smáfyrirtækjum endrum og sinnum) því þá er í raun verið að koma í veg fyrir að aðrir fái vinnu.

Sem sagt, enga yfirvinnu við byggingastörf í Tónlistarhúsinu og annars staðar, takk. Fjölga frekar vinnandi höndum!

Til hamingju, Áskell, það var svo sannarlega kominn tími til þess að þú yrðir heiðraður fyrir þitt ómælda framlag til íslenskrar nútímatónlistar.

Áskell hlaut verðlaunin fyrir verk sitt ORA sem var frumflutt í Síbelíusarhöllinni í Lahti í Finnlandi í maí í vor. Hér er stutt grein sem birtist í Huvudstadsbladet í Finnlandi í tilefni af því.

Frumflutningur á nýju verki eftir Áskel Másson

Vakti mikla athygli í Finnlandi

Miðvikudaginn 7. maí sl. var verkið ORA eftir Áskel Másson frumflutt í Síbelíusarhöllinni í Lahti í Finnlandi. Eftirfarandi er sá hluti úr gagnrýni um tónleikana sem varðar verk Áskels:

SEFJANDI ÁSLÁTTARHRYNJANDI

SINFÓNÍUHLJÓMSVEITIN Í LAHTI

Stjórnandi: Osmo Vänskä

Einleikur: Kroumata.

Verk eftir Áskel Másson og Bruckner.

Síbelíusarhöllinni 7.5.08

Sinfóníuhljómsveitin í Lahti hefur mjög látið til sín taka við flutning og túlkun á nútímatónlist og náð afbragðsgóðum árangri á því sviði eins og til dæmis sést á frumflutningi hennar á fjölmörgum verkum eftir hallartónskáldið Kalevi Aho. Að þessu sinni var þó frumflutt af mikilli snilli slagverkstónverkið ORA eftir Áskel Másson.

Íslendingurinn Áskell Másson (f. 1953) hefur lengi verið í hópi áhugaverðustu tónskálda Norðurlanda þótt honum hafi hvergi nærri hlotnast sú athygli á heimsvísu sem hann á skilið. ORA á það svo sameiginlegt með mörgum fyrri verkum Áskels að vera hvorki bundið af kreddum módernismans né yfirleitt neinna annarra –isma.

Áskell nýtir sér tvær íslenskar þjóðvísur á einkar frumlegan og nær dáleiðandi fjölbreyttan hátt. Stundum bregður þeim fyrir í ýmsum umbreyttum myndum en svo birtast þær líka í öllum sínum hráa mikilfengleik.

Áskell er sjálfur þaulreyndur slagverksleikari og veit hvernig á að beita hljóðfærinu en einkum hefur hann þó gert sér grein fyrir að því er fyrst og fremst ætlað að miðla hrynjandi.

Sefjandi hrynmynstur eru helsta einkenni ORA en fínu blæbrigðin eru líka í áberandi hlutverki. Slagverkssextettinn leikur á margs konar ásláttarhljóðfæri sem komið er fyrir í einskonar „eyju” í hafsjó hljóðfæranna og þaðan berst bæði einleikur hans og samleikur með hljómsveitinni.

Eina athugasemd er þó hægt að gera við þetta öfluga, djúphygla og einkar skemmtilega tónverk. Það er aðeins 20 mínútna langt en mætti vera miklu lengra. Áskell hefði vel getað sótt lengra inn í leikrænar andstæður þessa tónheims, efnið gefur svo sannarlega kost á því.

Kroumata bregst ekki

Verkið var pantað af Osmo Vänskä í samstarfi við slagverkssextettinn Kroumata sem lék af einstakri snilld. Það er ekki annað hægt en að taka ofan fyrir einstökum hæfileikum þeirra til þess að tileinka sér svo fjölbreytt tjáningarform innan tónlistarinnar sem raun ber vitni.

MATS LILJEROOS

kultur@hbl.fi

Á Íslandi er óþarfi fyrir vændiskonur að eyða því fé í auglýsingar sem þær hafa aflað í svita andlits síns og annarra líkamshluta. Íslenskur fjölmiðlar hlaupa alltaf upp til handa og fóta þegar þeir frétta af þannig sprotafyrirtækjum, fjalla ítarlega um þau í máli og myndum og greina vandlega frá nöfnum og heimilisföngum, jafnvel á hvaða hæð starfsemin starfrækt. Það vantar bara símanúmer, netföng og opnunartíma svo allt sé tínt til.

Lögregluyfirvöld um heim allan hafa í baráttu sinni gegn skipulagðri glæpastarfsemi stöðugt reitt sig meira á hleranir síma og farsíma.  En nú fer að fjúka í það skjólið því glæpaheimurinn er búinn að uppgötva Skype og þar er ekki hægt að hlera!

Bowie og Brel

14.2.2009

David Bowie hefur samið góð lög en nær kannski hvað hæst í ábreiðunum (nema kannski Space Oddity og Life on Mars?). Sjáið þessa útgáfu hans af lagi Jacques Brel, Port of Amsterdam:

En hér er auðvitað höfundurinn með sína útgáfu:

Og kannski hans frægasta lag, Ne me quitte pas. Hollensku skjátextarnir eru til að auðvelda ykkur skilning 🙂

Ég hafði einu sinni samkennara sem spilaði stundum bridge við okkur í frímínútum. Kolleginn átti stundum mjög djarfar og óvæntar lokasagnir á haldlítil spil og sagði þá að jafnaði um leið og viðkomandi stóð upp og hljóp fram, gjarnan í blálokin á frímínútunum: ,,Þrjú grönd og þú spilar það!“ Og þá var ekki um neitt annað að ræða en leggja sín eigin spil niður sem blindan, færa sig og taka slaginn. Oft urðu þeir ekki nógu margir.

Það er sjálfsagt mál að því verði mjög haldið á lofti, bæði innan lands og utan, hver það var sem upp á sitt eindæmi tók þá umdeildu ákvörðun að leyfa hvalveiðar, hver sagði ,,Þrjú grönd og þú spilar það!“. Oft taka ríkisstjórnir sameiginlegar ákvarðanir sem þær þurfa að standa við og fylgja eftir en því er aldeilis ekki að heilsa í þessu tilviki. Menn geta svo hrósað Einari eða gagnrýnt, allt eftir því hver afstaða manna er, en aðalatriðið er að rökræðunni sé beint að þeim sem tók ákvörðun einn síns liðs. Þeir sem eiga að spila úr slæmri stöðu verða svo bara að gera sitt besta.

Nú sprettur upp árleg umræða um bókhald flokkanna því erfiðlega virðist ganga að birta það, a.m.k hjá sumum.

Þegar venjulegir borgarar sækja um styrk til sjóða og fá hann er venjan sú að þeir geta ekki fengið nýjan styrk fyrr en þeir hafa sent inn skýrslu um hvernig honum var varið. Auðvitað ætti sama regla að gilda um flokkana þannig að þeir fengju enga opinbera styrki fyrr en þeir hefðu birt bókhald sitt með öllum upplýsingum um fjárframlög og gefendur.

Enn einu sinni sprettur fram umræða um laun rithöfunda. Tíundaðar eru upplýsingar um þá sem þegið hafa rithöfundalaun undanfarin ár og nákvæmlega tilgreint fyrir hve langan tíma launin hafa verið greidd. Undir má greina hneykslunartón yfir þessum útgjöldum (og jafnvel pólitíska undirtóna: Sjá roðann í fjáraustri).

Mér er minnisstætt að Kurt Vonnegut sagði í heimsókn sinni til Íslands undir lok níunda áratugar að í Bandaríkjunum lifðu um 300 rithöfundar af ritstörfum eingöngu. – Yfirfært á Ísland jafngildir það 0,3 rithöfundi. – Hinir yrðu að framfleyta sér á greinaskrifum og íhlaupaverkum fyrir tímarit og fyrirtæki.

Mér hugnast íslenska kerfið betur og þegar listinn yfir þá sem mest laun hafa þegið kemur í ljós að þetta eru flestir vinsælustu höfundar landsins og líklega flestir þeirra bestu nú um stundir. Þetta er svona 10-15 manna hópur og yfirfært á bandarískar aðstæður þýðir það um 10 – 15.000 rithöfunda. Ég held að sú þjóð myndi verða drjúg með að eiga svo marga höfunda í fremstu röð.

Ritlaun rithöfunda eru góður kostur því þau færa þjóðinni ómælda gleði og auka lífsgildi okkar allra. Bara ef það ætti við um allt það fé sem rennur úr opinberum sjóðum.

Friðrik Þór Guðmundsson gerði fína úttekt á bréfum Davíðs til embættismanna á moggablogginu en blaðið sá sér þann kost vænstan að rjúfa tengingu við frétt, af hvaða ástæðum sem það var nú gert. Ég hvet alla til að lesa grein Friðriks hér. (http://lillo.blog.is/blog/lillo/entry/798467/)