Það er aldeilis með ólíkindum að ríkisstjórnin skuli nú hafa dregið þjóðina á asnaeyrunum um bankahrunið og forsögu þess í heila fjóra mánuði, allt til þess eins að stjórnarflokkarnir geti fundað – um aðild að ESB!

Robert Wade lýsti því í októberbyrjun og aftur í kvöld hvernig hægt væri að fá svart gengi réttarendurskoðenda til að fara nákvæmlega yfir málin á hálfum mánuði! En auðvitað var það ekki leyft, það hefði nefnilega líklega þýtt að þeir hefðu viljað skoða Seðlabankann líka!

Í þessu máli kemur ekkert utan frá, hvorki töfralausnir né önnur hjálp. Þjóðin verður að leysa úr vandanum sjálf og ef ríkisstjórnin vill ekki hafa forgang um það verða aðrir fundnir sem geta það!

Hún er ótrúleg þessi umræða sem byggist á því að ef maður gagnrýnir einn sé maður jafnfram að lýsa yfir stuðningi við annan. Mér er meinilla við þá sem berja konuna sína en það þýðir ekki að ég myndi samþykkja að þeir séu myrtir. Ljót veggjakrot fer í taugarnar á mér en ég myndi aldrei samþykkja að það mætti skjóta veggjakrotara á rjúpnaveiðitímabilinu. Mér finnst sykur góður en ég er samt ekki óvinur salts. Þótt mér sé illa við myrkrið geri ég mér grein fyrir því að lífinu verður ekki lifað nema í blöndu ljóss og skugga.

Á sama hátt er það með innrásina í Gaza. Þegar ég fordæmi það að spítali fyrir nýbura og mæður sé sprengdur í tætlur er ég ekki að taka afstöðu með Hamas. Þegar ég lýsi því hve mikinn viðbjóð ég hef á eldflaugaárásum bókstafstrúarmannanna í Hamas á almenna borgara er ég ekki að segja að ég þakki guði fyrir Beit Hanoun árásina.

Það er fyrir löngu komið að trúverðugum fulltrúum umheimsins að hjálpa deilendum út úr þeirri úlfakreppu sem þeir eru komnir í fyrir botni Miðjarðarhafs og hver einasta lítið lóð á þær vogarskálar er dýrmætt.

Hér má sjá gott dæmi um það hvar her Ísraels leitar að Hamasmönnum til að útrýma, á norrænu sjúkrahúsi fyrir ófrískar konur og ungbörn. Hvers vegna segir Mogginn ekki þessa helstu frétt dagsins frá Gaza?


Gideon Lichfield hefur lengi verið blaðamaður The Economist í Jerúsalem og veltir því fyrir sér í þessari afbragðsgóðu grein hvers vegna Ísraelsmenn geti ekki unnið áróðursstríð sín, þrátt fyrir yfirburðafærni í almannatengslum. Málið er að þeir eru alltaf að reyna að svara rangri spurningu: Hvers vegna er þetta réttlætanlegt?“ Umheimurinn vill hins vegar vita hvernig einmitt þessi árás, þetta stríð, þessi fjöldamorð bæti stöðu mála á svæðinu og vísi í framtíðarátt. Og við þeim spurningum hafa þeir engin svör.

Því má líka bæta við að umheimurinn hefur það oft staðið Ísraelsher að lygum að hann er alltaf grunaður um græsku. Gott dæmi eru viðbrögðin eftir árásina á skólann þar sem fólki hafði verið ráðlagt að leita skjóls. Fyrst var sagt að Hamas hefði skotið sprengjum þaðan og dregnar fram myndir því til sönnunar (að vísu gamlar!) og svo var skýringum breytt eftir því sem fleira kom fram af óhrekjanlegum staðreyndum. Nýjasta útskýringin er að tæknibilun hjá tæknilega háþróaðasta her heims, sem hefur undirbúið þessa innrás af kostgæfni í hálft annað ár, sé ástæðan. Og enn efumst við…

Kominn hringinn

12.1.2009

Ég er kominn hringinn í blogginu. Hér á WordPress byrjaði ég fyrir nokkrum árum að blogga en færði mig svo yfir á Moggabloggið. Nú er hins vegar kominn tími til þess að færa sig að upphafinu, svipað og maður sem skilur og giftist á ný, skilur og giftist og tekur svo að lokum saman við þá fyrstu vegna þess að þar var hann í raun hamingjusamastur. Það verður svo bara að koma í ljós hvort einhver les þetta en það er ekki stóra málið fyrir mig, þessi skrif eru fyrir mig sjálfan.