Það var fyndið að sjá mann sem daglega flóir yfir í fjölmiðlum líma svartan miða yfir þverrifuna á sér og standa með sjóhatt og fasistakveðju fyrir framan ræðupúlt þeirra sem hann og félagar hans kalla vinstrigrænt pakk og gagnslaust blaðurlið og heimta að fá orðið á 25 mínútna fundi með fyrir fram ákveðinni dagskrá. Ef ég væri svona ósáttur við fólk sem skipuleggur fund myndi ég ekki krefjast þess að fá orðið hjá því og ekki einu sinni reyna að halda fund á sama tíma og sama stað til að koma mínum boðskap á framfæri. Ég sting upp á því að þessir höfðingjar haldi sinn fund á Austurvelli kl. 16 á laugardögum til að tala yfir sínum hópi.

Það er barnaskapur að halda að maður nái til fólks með svona ruddaskap – en reyndar var það líklega aldrei tilgangurinn. Markmiðið var væntanlega að reyna að stofna til æsinga eða jafnvel að hleypa fundi radda fólksins upp. Það tókst ekki núna og tekst vonandi aldrei.

Það voru einfaldar kosningar. Tveir voru í framboði. Atkvæðin voru samtals innan við þúsund. Nöfn þeirra voru töluvert ólík. Samt tókst fulltrúum flokksins að gera einhver fáránleg mistök og lýsa rangan mann formann.

Svona fólki má aldrei hleypa í ráðuneyti eða neins staðar þar sem tölur skipta máli.

Ég er farinn að hallast að því að forsætisráðherra sé einn helsti og mesti mótmælandi Íslands nú. Það er alveg sama hvað ráð eða viðvaranir erlendir fræðimenn og sérfræðingar koma með, hann mótmælir þeim öllum og dregur í efa það sem sagt er – að minnsta kosti til að byrja með. Hinn margfaldi botn sem svo oft hefur verið náð (þótt honum sé enn ekki náð) er gott dæmi um það og í Fréttablaði dagsins er eitt dæmið enn.

Þetta er að vera alvarlegt, fer kannski að verða kominn tími á piparúða?

Á Íslandi er allt ýmist í ökkla eða eyra. Menn eru annað hvort ofsaríkir eða gjaldþrota, blindfullir eða timbraðir, þeir vinna eins og skepnur eða liggja í leti. Og nú dynja yfir þrjár skelfingar samtímis, bankakreppa, gjaldeyriskreppa og ráðþrota ríkistjórn.

Aðeins ein þeirra er ekki heimatilbúin.

,,Við fall bankanna þriggja gátu fimm aðalmiðlarar ekki skilað inn ríkisbréfum sem þeir höfðu tímabundið fengið að láni hjá ríkissjóði. Þessir viðskiptahættir, að lána ríkisverðbréf gegn framlagningu tryggingabréfa fyrir hluta af upphæðinni sem fengin var að láni, er svokölluð skortsala. Í lánamálum ríkisins segir að „tilgangurinn með þessum lánasamningum var að stuðla að virkari verðmyndun með ríkisbréf á eftirmarkaði“. Áætlað tap ríkisins vegna þessarar skortsölu á ríkisverðbréfum er um 35 milljarðar króna.“

Þetta stendur hér í Mogganum og með þvílíkum ólíkindum að það getur varla nokkur heilbita maður trúað þessu. Ríkissjóður????

er að það endar alltaf með því að manni batnar á ný (a.m.k. hef ég ekki enn kynnst öðru). Eftir svona viku með hita og hausverk, kvef og kuldahroll, magnleysi og mók er hræið að rísa á fætur á ný og sjá! Það bíður nýr heimur – að vísu ekki eins glæsilegur og eftir síðustu flensu fyrir nokkrum árum en þó skárri en ef ég byggi á Gaza.

Það er gott að koma í vinnuna á ný og hitta félaga sem allt í einu eru orðnir skemmtilegir á ný (grín!) og bíða þess óþreyjufullir að uppfræða mann um nýjustu skandalana, þróun mála á heimavelli og allt það lausa og fasta sem rætt er um til að hvíla sig á starfinu. Fólki er svo mikið niðri fyrir að það þarf jafnvel alls ekki að grípa til þess uppfylliefnis sem oft er þrautaráðið þar sem fólk kemur saman og skortir eitthvað vitrænt að ræða um – ég á að sjálfsögðu við flokkapólitík. Það ánægulega er að samfélagið ólgar af umræðum um raunverulega pólitík, það sem þarf og á að gera og hvernig á að vinna það. Ef allir leggja sig fram þá náum við okkur upp úr þessari holu þótt hún sé djúp.

En leiðtogum okkar er hollt að muna að gáfaður maður sagði eitt sinn: ,,Því eru engin takmörk sett hverju menn geta fengið áorkað, bara ef þeim er sama um hver fær heiðurinn.“

Í fréttum RÚV í kvöld var sagt frá leit manna að peningum sem áttu að hafa komið inn í Kaupþing. Þrátt fyrir mikla leit finnast þeir ekki. Auðvitað ekki, þeir eru sama marki brenndir og peningarnir frá Birnu í Glitni, málamyndagerningur til þess gerður að blása upp verðmæti bankans í Kauphöll.

Hvernig stendur á því að svona lagað var leyfilegt í íslenska bankakerfinu? Þetta var blekkingavefur dauðans, Pótemkímtjöld íslenska efnahagsfurðuverksins sem byggðist upp á skuldasöfnun.

voru í viðtali í norska sjónvarpinu í kvöld. Þrátt fyrir að vera greinilega merktir af því sem þeir hafa séð og gengið í gegnum undanfarnar vikur voru þeir merkilega rólegir og skarpir í umfjöllun sinni og lýsingum á ástandinu.

Eitt vakti sérstaka athygli í orðum þeirra. Erik benti á að í öllum nútímastríðum væru tugir og hundruðir fréttamanna, ekki síst bandarískra, rétt að baki fremstu víglínu og jafnvel við hana. Í þessu stríði væri þó ekki einn einasti vestrænn fréttamaður til staðar. Ísraelsmenn höfðu fengið alla Vesturlandabúa út af Gaza fyrir árásina og hefðu læknarnir tveir ekki smyglað sér um egypsku landamærin rétt í þann mund sem átti að loka þeim hefðu engir verið til vitnis. Og augljóst er að frásagnir þeirra um linkinn góða (auk sms-skilaboðanna sem ég fékk m.a. frá dóttur minni í Danmörku en hélt að væru einhver blekking) eru óvænt og skýr sýn á stríðshörmungarnar. Auðvitað fjölluðu norsku læknarnir tveir ekki um allar hliðar málsins, það gera heldur engir fréttamenn og þeir höfðu engan tíma til þess, en Mads benti á að þeir væru vísindamenn sem líka sinntu klínískum störfum og að trúverðugleiki væri nauðsynleg forsenda verka þeirra.

Það var líka svolítið sérstakt að sjá athugasemdir lesenda renna yfir skjáinn á meðan á útsendingu stóð. Yfirleitt skiptir þar nokkuð jafnt í tvö horn, með og á móti viðmælendum hverju sinni, en þarna voru nær því hver einustu skilaboð jákvæð, hrósandi og full aðdáunar á fórnum þeirra tveggja, þrátt fyrir að málstaður Ísraelsmanna njóti mikillar samúðar í Noregi. Einhver sagði þá tvo bestu sendiherra Noregs frá upphafi!

Ef menn vilja endilega reisa Tómasi borgarskáldi annað minnismerki, er þá ekki alveg gráupplagt að höggva nafnið hans í einhverja súluna í hálfbyggðu tónlistarhöllinni? Það má líka setja upp skilti með nafni hans á húsið þannig að það sjáist frá t.d. Sæbrautinni. Þannig yrði vel tekið eftir nafninu og minnismerkið yrði líka beintengt við heiti fyrstu ljóðabókar hans, Við sundin blá.

Og þögnin, þögnin hvíslar hálfum orðum –
Hugurinn minnist söngs, sem löngu er dáinn.
Ó, sál mín, sál mín! Svona komu forðum
sumurin öll, sem horfin eru í bláinn –

,,Sjálfstæðisflokkurinn þarf að móta þjóðinni skýra framtíðarstefnu“, segir Björn Bjarnason dómsmálaráðherra. En fyrir tæpum 20 árum markaði sá flokkur Íslandi einmitt sína skýru framtíðarstefnu, raðaði öllum sínum bestu mönnum í stjórnunarstöður og kom drjúgum hluta af sameign þjóðarinnar til viðtakenda með rétt flokksskírteini. Hluti af þeirri framtíðarstefnu var að fjarlægja eftirlit og „red tape“ eftir því sem nokkur möguleiki var og nú blasir afleiðingin við.

Það er rétt að þjóðin þarf skýra framtíðarstefnu en hana þarf að leggja í ljósi fortíðar. Og rétt eins og skipstjórinn í Hart í bak var settur í land eftir sín mistök þarf að setja Sjálfstæðisflokkinn til hliðar. Hann hefur sýnt að siglingakunnáttan er ónóg.