Það besta við bölvaða flensuna

15.1.2009

er að það endar alltaf með því að manni batnar á ný (a.m.k. hef ég ekki enn kynnst öðru). Eftir svona viku með hita og hausverk, kvef og kuldahroll, magnleysi og mók er hræið að rísa á fætur á ný og sjá! Það bíður nýr heimur – að vísu ekki eins glæsilegur og eftir síðustu flensu fyrir nokkrum árum en þó skárri en ef ég byggi á Gaza.

Það er gott að koma í vinnuna á ný og hitta félaga sem allt í einu eru orðnir skemmtilegir á ný (grín!) og bíða þess óþreyjufullir að uppfræða mann um nýjustu skandalana, þróun mála á heimavelli og allt það lausa og fasta sem rætt er um til að hvíla sig á starfinu. Fólki er svo mikið niðri fyrir að það þarf jafnvel alls ekki að grípa til þess uppfylliefnis sem oft er þrautaráðið þar sem fólk kemur saman og skortir eitthvað vitrænt að ræða um – ég á að sjálfsögðu við flokkapólitík. Það ánægulega er að samfélagið ólgar af umræðum um raunverulega pólitík, það sem þarf og á að gera og hvernig á að vinna það. Ef allir leggja sig fram þá náum við okkur upp úr þessari holu þótt hún sé djúp.

En leiðtogum okkar er hollt að muna að gáfaður maður sagði eitt sinn: ,,Því eru engin takmörk sett hverju menn geta fengið áorkað, bara ef þeim er sama um hver fær heiðurinn.“

%d bloggurum líkar þetta: