Mads Gilberg og Erik Fosse

13.1.2009

voru í viðtali í norska sjónvarpinu í kvöld. Þrátt fyrir að vera greinilega merktir af því sem þeir hafa séð og gengið í gegnum undanfarnar vikur voru þeir merkilega rólegir og skarpir í umfjöllun sinni og lýsingum á ástandinu.

Eitt vakti sérstaka athygli í orðum þeirra. Erik benti á að í öllum nútímastríðum væru tugir og hundruðir fréttamanna, ekki síst bandarískra, rétt að baki fremstu víglínu og jafnvel við hana. Í þessu stríði væri þó ekki einn einasti vestrænn fréttamaður til staðar. Ísraelsmenn höfðu fengið alla Vesturlandabúa út af Gaza fyrir árásina og hefðu læknarnir tveir ekki smyglað sér um egypsku landamærin rétt í þann mund sem átti að loka þeim hefðu engir verið til vitnis. Og augljóst er að frásagnir þeirra um linkinn góða (auk sms-skilaboðanna sem ég fékk m.a. frá dóttur minni í Danmörku en hélt að væru einhver blekking) eru óvænt og skýr sýn á stríðshörmungarnar. Auðvitað fjölluðu norsku læknarnir tveir ekki um allar hliðar málsins, það gera heldur engir fréttamenn og þeir höfðu engan tíma til þess, en Mads benti á að þeir væru vísindamenn sem líka sinntu klínískum störfum og að trúverðugleiki væri nauðsynleg forsenda verka þeirra.

Það var líka svolítið sérstakt að sjá athugasemdir lesenda renna yfir skjáinn á meðan á útsendingu stóð. Yfirleitt skiptir þar nokkuð jafnt í tvö horn, með og á móti viðmælendum hverju sinni, en þarna voru nær því hver einustu skilaboð jákvæð, hrósandi og full aðdáunar á fórnum þeirra tveggja, þrátt fyrir að málstaður Ísraelsmanna njóti mikillar samúðar í Noregi. Einhver sagði þá tvo bestu sendiherra Noregs frá upphafi!

%d bloggurum líkar þetta: