Biskupi svarað

31.1.2009

Biskupinn yfir Íslandi, herra Hallgrímur Sveinsson, fór um Skagafjörð sumarið  1900. Hann var áhugasamur um vínbindindi og var vanur að spyrja sóknarnefnd á hverjum stað um ástand í þeim málum þar. Á Hofstöðum spurði hann að venju hvort mikið væri um drykkjuskap þar í sveitinni. Björn Pétursson varð fyrir svörum  og mælti: „Vestan Vatna þekki ég ekki til þeirra hluta, en hér austan Vatna má það ekki minna vera.”
Úr Skagfirðingabók.

Nískir þingmenn?

31.1.2009

Hvers vegna geta þingmenn ekki borgað sín veisluhöld sjálfir fyrst allir sakna þingveislunnar góðu svo mikið? Við venjulegir dauðlegir borgum undir flestum kringumstæðum sjálfir okkar samsæti og auðvitað ættu einmitt þingmenn að efla eindrægni sína og njóta lífsins saman – á eigin kostnað!
Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Lagið er stolið

30.1.2009

Það er stundum rifist um hvort stef í lögum séu stolin. Nýjasta dæmið í dægurtónlistinni er Outlaw Pete með Springsteen sem líkist gömlu KISS lagi (og enginn man hvaðan því var stolið).  Hér er skemmtilegt dæmi um hvað hægt er að gera með fjóra hljóma (t.d. C-G-am-F) ad nauseam…

Það hlýtur að vera erfitt fyrir sjálfhverfa og íhaldssama hagsmunapólitíkusa að horfa upp á alvöru fagfólk taka við völdum í ráðuneytum og stofnunum landsins, menn sem ekki bara eru innmúraðir og innvígðir heldur kunna sitt fag.

Ef það gengur eftir að fá menn eins og Gylfa, Má og Vilhjálm til starfa í og með ríkissstjórninni nýju liggur ekkert á að kjósa fyrr en 2011. Þar eru menn sem þjóðin treystir og beri nýja stjórnin gæfu til að fá þá og fleiri af sama kalíberi til að taka til með sér þarf þjóðin engu að kvíða, engar kosningar geta bætt um betur.

Ísraelsstjórn flýtir sér nú að semja og samþykkja lög til að styðja við ísraelska hermenn, verði þeir ákærðir fyrir stríðsglæpi.

Mestar líkur eru á ákærum vegna beitingar forfórsprengja en efnið heldur áfram að brenna utan á og innan í líkamanum á meðan það kemst súrefni að honum. Frakkar munu  næstu daga senda hóp manna til að rannsaka beitingu vopna í árásinni á Gaza.

Geislavirku sprengivopnin munu hins vegar vera það ný að bann við þeim hefur ekki enn komið til umræðu á alþjóðlegum vettvangi. Sennilega þurfti að kanna hvernig áhrif þau hefðu á óvarða almenna borgara.

SÞ og Ísraelsher (o.fl.) eru sammála um að 1100 til 1400 manns hafi fallið í þessum átökum sem allt stefnir í að verði skoðuð nákvæmlega af alþjóðlegum stofnunum og jafnvel dómstólum á næstunni. Vonandi verður ekki endurtekning á þessum hryllingi en hér er nánar fjallað um málið.

Afsögn Björgvins sýnir að ríkissjórnin skildi alltaf boðskap mótmælanna. Það var hins vegar ákveðið að reyna að hunsa kröfurnar eins lengi og fært var. Nú hefur verið boðað að kosið verði og þá fara menn að hugsa sinn gang, Það er vel.

“Ef einhver telur að ég hafi gert eitthvað af mér, þá biðst ég afsökunar á því.”

Þessi afsökunarbeiðni mun vera í boði Geirs Haarde.

Stundum er farið í kynningarátak og fólk áminnt um til dæmis að láta börn nota reiðhjólahjálma, aka  ekki undir áhrifum, ástunda reglulegan sparnað eða taka vetrardekkin undan bílnum. Boðskapurinn er endurtekinn og settur fram á fjölbreyttan hátt svo hann nái nú örugglega eyrum fólks.

Þeim mun fáránlegra er að lesa um viðbrögð fulltrúa í fjármálaeftirliti, hjá ríkisstjórn og í Seðlabanka við skýrslu Buiters og Siberts í fyrra um yfirvofandi hrun íslenska bankakerfisins. Allt þetta fólk var að eigin sögn (sjá Fréttablað dagsins) sammála um að hafa engar áhyggjur af því sem fram kom í skýrslunni, það hafði nefnilega séð allar þessar upplýsingar og varnaðarorð áður!

Eða eins og Norðmenn segja: ,,Maður þarf að heyra margt áður en eyrun detta af!“

Sunnlendingar voru 23.505 þann 1. desember sl. eða um 7,5% þjóðarinnar. Sé þessi tala, 370 handtökuskipanir, færð yfir á landið í heild sinni bíða því nær 5.000 manns þess að vera færðir til sýslumanns vegna fjárnáms. Líklega er stór hluti þessa greiðsluvanda sprottinn upp úr bankahruninu en í kjölfar þess lofuðu stjórnvöld að koma til móts við fólk í vanda. Það var ekki tekið fram að komið yrði til móts við það í lögreglubílum!

Eru loforð ráðamanna okkar bara hjómið eitt? Ef menn ætla að fara að standa við orð sín þarf að byrja STRAX!

Nú fara hamförum í bloggheimum talsmenn sem hafa tekið að sér svipað hlutverk og David Irvin. Þessi breski sagnfræðingur hafnar því að helför gyðinga hafi nokkru sinni átt sér stað, á sama hátt og þessir sjálfskipuðu talsmenn lúsarlesa lista yfir fallin börn á Gaza til þess að reyna að finna misræmi sem gerir þeim kleift að draga allan listann í efa og segja hann uppspuna.

Skrýtið hvernig sagan endurtekur sig…