Á undanförnum mörgum árum hafa Íslendingar tekið að sér í þúsunda og jafnvel tugþúsundavís að ala önn fyrir börnum í öðrum heimshlutum, nú síðast sem heimsforeldrar í miklu átaki. Það má auðvitað segja að þetta séu afskipti af innanríkismálum þessara landa en það verður að hafa það, velferð barnanna skiptir meginmáli.

Nú hefur forseta Íslands verið boðið að sitja í Þróunarráði Indlands en það er í raun eðlilegur þáttur í þessari útrás íslenskra heimsforeldra að reyna að komast til áhrifa í þessu næstfjölmennasta ríki heims þar sem misskiptingin er jafngríðarleg og raun ber vitni.

En ekki fellur öll útrás jafn vel í kramið hjá stjórnvöldum. Að manni læðist þó sá grunur að þetta mál snúist í raun ekki um setu í þróunarráðinu heldur sé um hið þráláta valdatafl ÓRG og núverandi stjórnarflokka að ræða. Forsetinn lítur á sig fulltrúa þjóðar sinnar og vinnur að sömu málum og hún sýnir áhuga en utanríkisráðuneytið og utanríksmálanefnd vilja helst sjá forsetann sem þægan kontórista.

Engum dettur í hug að halda því fram að seta forseta í Þróunarráði Indlands sé lögbrot. Það hefði verið gaman að sjá þessar tvær stofnanir bregðast við af jafn miklum ákafa þegar tveir menn tóku þá einhliða ákvörðun að ráðast í stríðsaðgerðir í blóra við stjórnarskrá lýðveldisins.