Fluttur!

16.2.2007

Þá er komið að því að viðurkenna að ég er fluttur, þó ekki eðlisrænt heldur aðeins í netheimum. Ég hef sem sagt fært mig yfir á Moggabloggið með Heidi, Má, Riðari T.  og mörgum öðrum góðum. Ég þakka öllum þeim sem hafa smellt sig inn á Ár & síð hér og býð þá velkomna á nýtt Ár og síð hér. Lifið heil!

Yfirleitt finnst góðum tónlistarmönnum ekki leiðinlegt að spila. En stundum finnst þeim það svo feikilega gaman að þeir hrífa með sér alla sem á hlýða. Það á svo sannarlega við um Terem-kvartettinn rússneska frá Pétursborg sem hefur spilað alls konar tónlist með tónlistarfólki af öllu tagi um heim allan. Tónlistarmennirnir fjórir hafa ýmsar tónlistarlegar forsendur og spila allt mögulegt.
Þeir brilleruðu í kvöld með glæstri blöndu af Rossini, Rimsky Korsakov, Bizet og eigin útgáfum af efni alls staðar að. Diddú tók með þeim nokkur lög eftir hlé og sagði þá ekki síst hrifna af ítalskri tónlist. Það leyndi sér ekki.

Og það fylgir líka sögunni að þeir báðu sérstaklega um það síðustu dagana að leika fyrir nemendur í grunnskólum Kópavogs. Krakkarnir sátu grafkyrrir og með sperrt eyrun og síðasti hópurinn stóð meira að segja upp og hrópaði ferfalt húrra fyrir Rússunum vinalegu að flutningi loknum. Það er örugglega ekki daglegur viðburður í þeim hópi.

Hver er hún?

14.2.2007

Hún hefur lengi vakið athygli. Eitt sinn fann hún sér gamlan mann sem átti sér mikinn fjársjóð og reyndi að blekkja hann til að gefa sér hann í blóra við erfingjana.

Hér er spurt um:
A) Önnu Nicole Smith og gamla auðkýfinginn hennar
B) Reykjavíkurborg og Jóhannes S. Kjarval
C) Bæði A og B

Extrabladet,  sá útikamar öfundarinnar, sér sóma sinn í því að birta þessa grein. Mannfyrirlitning er alltaf ljóður á ráði skrifandi fólks.

Gunnar Guðbjörnsson vinnur leik- og söngsigur í þessu sérstaka verki eftir Stravinskí og gömlu Öldutúnsnemendurnir Ágúst og Eyjólfur standa sig báðir frábærlega vel. Búningarnir eru eftirtektarverðir og leikstjórinn tekur sína útgáfu á Sylvíu Nótt með garðagróðri. Það þarf kjark til að setja upp verk sem er svo kröfuhart til áheyrenda en ég fæ ekki betur séð en að ótrúlega vel hafi tekist til.

Hvað titilinn áhrærir tel ég þó að að líklega séu hvað fæstir flagarar í Framsóknarflokknum núna, hann ku jú vera að deyja út og flagarar eru ekki þekktir fyrir að eltast við neitt sem nálykt er af.

Mikið er rætt um árangur íslandska landsliðsins í handknattleik á HM Þýskalandi. En sé litið til þess að Íslendingarnir mættu öllum liðunum nema einu sem enduðu fyrir ofan það og töpuðu öllum þeim leikjum nema fyrir Frökkum sem urðu í 4. sæti má segja að að 6. – 8. sæti sé viðunandi og jafnvel sanngjörn niðurstaða. Og flestir leikirnir voru hin besta skemmtun, ekki síst hinn spennuþrungni Danaleikur. Hafi þeir heila þökk fyrir góða skemmtun – í heildina litið.

Á undanförnum mörgum árum hafa Íslendingar tekið að sér í þúsunda og jafnvel tugþúsundavís að ala önn fyrir börnum í öðrum heimshlutum, nú síðast sem heimsforeldrar í miklu átaki. Það má auðvitað segja að þetta séu afskipti af innanríkismálum þessara landa en það verður að hafa það, velferð barnanna skiptir meginmáli.

Nú hefur forseta Íslands verið boðið að sitja í Þróunarráði Indlands en það er í raun eðlilegur þáttur í þessari útrás íslenskra heimsforeldra að reyna að komast til áhrifa í þessu næstfjölmennasta ríki heims þar sem misskiptingin er jafngríðarleg og raun ber vitni.

En ekki fellur öll útrás jafn vel í kramið hjá stjórnvöldum. Að manni læðist þó sá grunur að þetta mál snúist í raun ekki um setu í þróunarráðinu heldur sé um hið þráláta valdatafl ÓRG og núverandi stjórnarflokka að ræða. Forsetinn lítur á sig fulltrúa þjóðar sinnar og vinnur að sömu málum og hún sýnir áhuga en utanríkisráðuneytið og utanríksmálanefnd vilja helst sjá forsetann sem þægan kontórista.

Engum dettur í hug að halda því fram að seta forseta í Þróunarráði Indlands sé lögbrot. Það hefði verið gaman að sjá þessar tvær stofnanir bregðast við af jafn miklum ákafa þegar tveir menn tóku þá einhliða ákvörðun að ráðast í stríðsaðgerðir í blóra við stjórnarskrá lýðveldisins.