Sægreifinn & Bocuse

20.1.2007

Aldrei þessu vant fór ég tvisvar sinnum út að borða í gær og ég held að varla geti verið meiri munur á stöðunum tveimur.

Í hádeginu fórum við Kalli og Hilmar til Kjartans á Sægreifanum, skoðuðum þorramat með súrsuðum selhreifum (eða mákum eins og við segjum fyrir austan) og selapylsu ásamt öllu þessu hefðbundna á bökkunum og fengum okkur svo fiskisúpu með pilsner og snittubrauði. Mikið ágæti í grófgerðri en mjög sérstakri og notalegri verbúð með brosandi og vingjarnlegum vertum.

Ég vann svo til kl. átta um kvöldið og í framhaldi af því villtumst við Heidi inn á glæsistaðinn Vox á Hótel Nordica þar sem boðið var til veislu að hætti íslensku keppendanna í Bocuse d’ Or matreiðslukeppninni. Og þvílíkir snillingar sem þar véluðu um potta! Fram voru bornir lystaukar af ýmsu tagi auk þriggja rétta matseðils með kóngakrabbafyllri smálúðu í forrétt, kjúklingabringu og -læri með andalifur í aðalrétt og himnesku súkkulaðifrauði með hvítum súkkulaðiís og heitri súkkulaðisósu í eftirrétt. Það var með naumindum að við komumst heim að þessu loknu en eftir stendur að þetta var einstakur bóndadagur hjá mér.

%d bloggurum líkar þetta: