Vér þjófsnautar

3.1.2007

Fyrir nær 30 árum virðist sem gamall listamaður með heilabilun og á geðlyfjum hafi verið blekktur til að segjast vilja gefa Reykjavíkurborg einhver verka sinna. Öll verk hans voru svo hirt eins og þau lögðu sig af vinnustofu hans ásamt persónulegum munum á borð við t.d. einkabréf frá börnum hans í Danmörku. Allar sannanir fyrir gjörningnum eru mjög í skötulíki og lítt áþreifanlegar. Engu að síður hefur héraðsdómur nú staðfest hann en málinu verður örugglega áfrýjað.

Þessi gjörningur var framkvæmdur af þjónum okkar borgarbúa og í nafni okkar. Finnst fólki í raun ekki óþægilegt að bera ábyrgð á þessu grimmdarverki gagnvart erfingjum listamannsins Kjarvals. Hvað ef um verðbréf hefði verið að ræða? Hefði þessi svokallaða ,,gjöf“ þá þótt jafn trúverðug og sumum þykir nú?

Ég hvet borgaryfirvöld til að ganga umsvifalaust til samninga við afkomendur Kjarvals, hætta að hengja hatt sinn á vafasamar órökstuddar fullyrðingar vafasamra einstaklinga heldur sýna manndóm – í nafni borgarbúa. Á þessum tímum er mikið rætt um að gera upp syndir fortíðar á ýmsum sviðum. Hér virðist ekki vera vanþörf á því.

Ekkert okkar myndi vilja sjá sjálft sig í þessari stöðu og þessi málarekstur er yfirvöldum til skammar, að ræna heila fjölskyldu föðurarfi sínum..

%d bloggurum líkar þetta: