Kúbverskir flóttamenn undirbúa hátíð aldarinnar í Miami. Hefst gleðin um leið og fréttist af dauða Fídels gamla sem maðurinn með ljáinn leitar nú að durum og dyngjum um Kúbu alla.

Miðdepill teitisins verður á Orange Bowl leikvanginum þar sem Kennedy boðaði á sínum tíma frjálsa Kúbu fyrir mafíuvini sína og þar sem kúbverskir flóttamenn hírðust um hríð þegar stór holskefla þeirra kom til ríkisins á níunda áratug. Mér segir svo hugur um að þar verði boðið upp á Cuba Libre.

Saddam var tekinn af lífi fyrir að láta hermenn sína og tudda drepa þá sem hann taldi vera óvini sína og vinna gegn sér.

Nú hefur Bandaríkjaher fengið umboð til að gera slíkt hið sama í sama landi við Írani en þeir voru engir í landinu fyrir innrásina. Er þá loksins „Mission Accomplished“ eins og Bush lýsti ótímabært yfir á flugmóðurskipinu hér um árið?

Hin tíu manna hljómsveit Dusty Cowshit sló í gegn í norsku undankeppninni í Bodø í kvöld með kántrí-rapplaginu Chicken Rodeo. Þeir segjast allir eiga sama föður en mismunandi mæður og leggja mikla áherslu á sviðsframkomuna. Stærsti vandinn var að bara sex þeirra máttu vera á sviðinu en lagið fer beint í lokakeppnina.  Við fáum að sjá þá í Helsinki í vor, það er ég viss um.

Milliriðill?

27.1.2007

 Af: http://hacked.free-bsd.org/funstuff

Í dag er eitt ár síðan ég byrjaði að blogga, á afmælisdeginum hans Hilmars. Þetta er skemmtileg tómstundaiðja og augljóst að samstarfsfólkið losnar nú frekar við að hlusta á tuðið í manni þegar hægt er að hella því öllu á Netið.

Ég er ekki hættur en held áfram og áfram…

Forseti Ísraels biður um svigrúm til þess að berjast gegn alvarlegum ásökunum um nauðganir og kynferðislegt áreiti.

Forseti Bandaríkjanna biður um svigrúm til þess að geta barist af enn meiri hörku og aukið ringulreiðina og mannfallið, örvæntinguna og hatrið í Írak.

Forseti Íslands bað um tilfinningalegt svigrúm. Mikið megum við Íslendingar vera þakklátir fyrir að þurfa ekki að búa við það sem þjóðir tveggja fyrrnefndu forsetanna takast á við.

Hvernig liti íslenskur kveðskapur út ef menn hefðu orðið að yrkja í boði fyrirtækja okkar tíma?

Stefán Ólafsson hefði ort:
Ég veit eina Baugs-línu…

Jónas hefði ort:
Háa skilur hnetti himingeimur,
blað skilur Bakka og vör…

Nýdönsk hefði sungið:
Alcoa…

Bó hefði sungið:
Þó líði ál og öld…

Laxness hefði ort:
Bráðum kemur betri tíð með blóm í Haga…

Hljómar hefðu sungið:
But I don’t Ker…

Eyvi hefði sungið:
Ég lif’ í Straumi…

Elton John kom til Íslands til að spila og syngja en ákvað líka að kaupa íslenska glerlist. Auðvitað skoðaði hann verkin hennar Ingu Elínar og átti við hana viðskipti. Maður með góðan smekk kaupir af alvöru listamanni, ekki kellingum sem stela hugmyndum og fá annars flokks sjoppur til að selja draslið.

Enn einu sinni hefur komið í ljós að stjórnvöld hafa leyft erlendum aðilum (t.d. bandarískum hernaðaryfirvöldum og Alcoa) að notfæra sér landið, meiða það og skaða án þess að þurfa að standa straum af eðlilegum kostnaði við lagfæringar eða greiða fyrir afnotin. Þar rættust sem sagt orð skáldsins þótt kannski hafi sú meining ekki upprunalega verið lögð í þessi orð.
Landið fékkst ókeypis, þar var frítt.

Aldrei þessu vant fór ég tvisvar sinnum út að borða í gær og ég held að varla geti verið meiri munur á stöðunum tveimur.

Í hádeginu fórum við Kalli og Hilmar til Kjartans á Sægreifanum, skoðuðum þorramat með súrsuðum selhreifum (eða mákum eins og við segjum fyrir austan) og selapylsu ásamt öllu þessu hefðbundna á bökkunum og fengum okkur svo fiskisúpu með pilsner og snittubrauði. Mikið ágæti í grófgerðri en mjög sérstakri og notalegri verbúð með brosandi og vingjarnlegum vertum.

Ég vann svo til kl. átta um kvöldið og í framhaldi af því villtumst við Heidi inn á glæsistaðinn Vox á Hótel Nordica þar sem boðið var til veislu að hætti íslensku keppendanna í Bocuse d’ Or matreiðslukeppninni. Og þvílíkir snillingar sem þar véluðu um potta! Fram voru bornir lystaukar af ýmsu tagi auk þriggja rétta matseðils með kóngakrabbafyllri smálúðu í forrétt, kjúklingabringu og -læri með andalifur í aðalrétt og himnesku súkkulaðifrauði með hvítum súkkulaðiís og heitri súkkulaðisósu í eftirrétt. Það var með naumindum að við komumst heim að þessu loknu en eftir stendur að þetta var einstakur bóndadagur hjá mér.