Nafn og starf

13.12.2006

Hann Arne Knippel er deildarstjóri í Forsikring & Pension, samtökum danskra tryggingafélaga. En maður með svona eftirnafn ætti auðvitað að vera lögga eða öryggisvörður.

Guðjón Ólafur Jónsson var mér samferða í flugi heim frá Köben í byrjun nóvember (við lentum báðir í langa hangsinu eftir óveðrið). Hann hefur einnig nýlega verið í New York og því ekki óvanur utanlandsferðum.
Það er orðið giska úrelt lýðskrum að gagnrýna utanferðir, þær eru orðinn það snar þáttur í lífi allra landsmanna. Af þessu má draga þá ályktun að besta leiðin til að losna við Guðjón Ólaf Jónsson úr íslenskri pólitík sé einfaldlega að gefa honum orðið.

Enn um kornflex

8.12.2006

Í þessari klausu ræddi ég um kornflex og kynlíf en kornflex er eins og allir ættu að vita búið til úr maís og er enda líka kallað maísflögur á íslensku.
Nú tók Mogginn sig til á sunnudaginn var og sagði sögu kornflexins en í greininni er tönnlast á því að kornflex sé búið til úr hveitikornum. Þar er þýðingapúkinn að stríða því corn þýðir vissulega hveiti í Englandi en í Bandaríkjunum þýðir það maís. Nóg er að benda á poppkorn því til staðfestingar. Allir sem vilja, sjá að þar er um þurrkaðan maís að ræða.

Mér barst áðan fundarboð með m.a. eftirfarandi upplýsingum: ,,Fundarsýra verður Sædís …“
Ég fór að velta því fyrir mér hvað fundarsýra gerir og það liggur náttúrulega beint við að hún geri fundarmenn súra. Ég ætla þó að vona að þessi prentvilla í orðinu fundarstýra eyðileggi ekki annars ágætan fund.
Þá rifjaðist líka upp fyrir mér ágætis orð sem kunningjakona mín ein notaði á sínum tíma yfir heimasætuna dóttur sína þegar gelgjan herjaði sem verst á hana. Þá var stúlkukindin af móður sinni kölluð heimasúran!

Eitt bann enn …

5.12.2006

Og nú á að banna herta fitu í New York.

Meira að segja allar vísbendingarnar um svartapétur í gátunni, Van The Man sem bjó í Vanløse með þáverandi danskri unnustu sinni, en nú mun sá bær vera laus við Van.
Verðlaunin verða afhent við tækifæri en um þau verður ekki meira rætt á þessari síðu.
Páli Ásgeiri er að þakkað gott brautryðjendastarf við lausnina.

Vísbending #6

5.12.2006

Sá sem spurt er um í 3. lið er heimsþekktur tónlistarmaður og fyrri tvær vísbendingarnar um hann vísa báðar til heitis á lagi eftir hann. Tengingu hans við hina sem spurt var um má líka sjá í heiti lags.

Vísbending #5

4.12.2006

Sá sem spurt er um í 1. lið var skírður Tyge en notaði á fullorðinsárum fjölþjóðlegri útgáfu af því nafni (meira „erlendis“ nafn eins og Bjöggi hefði sagt).
Ég sé af athugasemdum við síðustu vísbendingu að báðir lesendur mínir eru enn í vafa. Mér sýnist því einboðið að hefja strax á morgun nýja vísbendingaumferð en gef þó hér eina aukavísbendingu um sameiginlega þáttinn. Hann varðar búsetu.

Vísbending #4

4.12.2006

Sá sem vísað er til í 2. lið spurningarinnar er jafnan kallaður íslensku nafni hér á landi og ber auk þess einstakt og samsett viðurnefni.

Vísbending #3

4.12.2006

Sá sem spurt er um í 3. lið hefur gert gloríur á Íslandi.