Í morgun var Saddam Hussein tekinn af lífi í umboði hinna viljugu og staðföstu. Þessi gamli grimmdarseggur og bandamaður Vesturvelda allt frá valdaráninu 1979 gekk loks fram af vinum sínum í vestri með innrásinni í Kúvæt árið 1990 því þar voru of miklir hagsmunir í veði. Þá hafði hann m.a. barist með vestrænum vopnum við Írani í 7 ár og reynt þjóðarmorð á Kúrdum með efnavopnum frá vinum sínum.

Sundurtætt Írak fær nú nýjan píslarvott. Saddam hefur breyst úr því að vera alþjóðlega hataður einræðisherra í kúguðu en þó þokkalega friðsömu landi í píslarvott og dýrling sinna manna í landi sem aldrei verður aftur eitt samhangandi ríki. Líklegast verður á næstu árum til Írak 1, 2 og 3, að mestu skipt eftir línum Kúrda, súnníta og shíta, en þó þannig að allir hlutarnir fá sína minnihlutahópa sem finnst gengið á rétt sinn og hefjast því handa við að útrýma andstæðingum, bæði raunverulegum og ímynduðum, með tilheyrandi hryðju- og skemmdarverkum og morðum á körlum, konum og börnum

Og þessi ósköp eru í sjálfsbyrgingshætti og hroka kölluð stríð gegn hryðjuverkum.