Grethe hefur kvatt

14.11.2006

Hún mágkona mín Grethe kvaddi þennan heim í Þrándheimi upp úr hádeginu í dag, líklega södd lífdaga þrátt fyrir ekki mjög háan aldur.
Ég hafði ekki mjög mikið af henni að segja mörg undanfarin ár en sem betur fer náðum við að styrkja tengslin með spjalli á MSN-inu síðasta hálfa árið eða svo.
Fari hún í friði. Elisabeth, Per Johan og Helene fá samúðarkveðjur okkar.

Það er svolítið sérstakt að kíkja í glugga og búðir fyrir þessi jól. Alls staðar eru svartir kertastjakar, svartar styttur, allt kolsvart jólaskraut í ár.
Það er sko ekki þetta sem mér dettur í hug þegar ég hugsa um „Black Label“ jól.

Ef verktakar við vegaframkvæmdir fara að reglum þá er eitthvað bogið við reglurnar. Ég hef oft ekið á vegum erlendis þar sem framkvæmdir fara fram og verð alltaf miður mín þegar ég kem svo heim og að íslenskum framkvæmdasvæðum.
* Framkvæmdirnar birtast oft nær fyrirvaralaust, erlendis eru stór skilti og ljósmerki sem vara við hvað framundan er.
* Engar akreinamerkingar eru hér, erlendis eru yfirleitt málaðar gular línur til að sýna bráðabirgðaakreinar. (sjá t.d. fáránlegar „akreinamerkingar“ á vinnusvæðinu á Sæbraut núna).
* Menn eru að vinnu og hafa ekkert sér til varnar nema (kannski) plastkeilur, erlendis eru yfirleitt settir steyptir stöplar til að verja þá og alltaf ör sem bendir bílstjórum á aðra akrein áður en að vinnustað er komið.
* Skilti vantar sem sýna breytingar á akreinum á vinnusvæðinu, erlendis eru þau greinileg og mörg, bæði við hlið vegar og fyrir ofan.
Ég er viss um að fagmaður gæti bent á miklu fleiri þætti sem verða að fara að betur ef þessir vinnustaðir eiga ekki að kosta fleiri mannslíf.

Í fjölskyldu minni ríkir alvarlegur innflytjendavandi. Hann hófst reyndar með því að afi minn kom frá Noregi, tók vinnu frá íslenskum vegagerðarmönnum og beit svo höfuðið af skömminni með því að setjast hér að og kaupa hús sem hreinræktaðir Íslendingar hefðu getað keypt. Áratugum saman tók afi vinnu frá íslenskum skipstjórnendum og nú liggur hann grafinn á Seyðisfirði og tekur pláss frá íslenskum líkum.
65 árum síðar varð mér á að lenda í norskri stúlku sem tók mig á löpp og flutti til Íslands þar sem hún byrjaði á því að taka vinnu frá íslenskum sjúkraliðum. (Sennilega tók hún mig þó ekki frá neinum íslenskum konum enda fremur lítill áhugi hjá þeim fyrir mér). Hún eignaðist með mér þrjú börn sem lengi hafa tekið bæði pláss og annað frá hreinræktuðum Íslendingum. Nú tekur hún pláss frá íslenskum listamönnum í nýja SÍM-húsinu við Seljaveg.
Tvö barna minna eru svo innflytjendur í Danmörku og taka pláss frá þvottekta Dönum, auk þess sem ein náfrænka mín býr með stórfjölskyldu sinni í Svíþjóð og þvælist væntanlega illa fyrir fólki þar og önnur í Frakklandi þar sem svo erfitt er að fá húsnæði að Frökkum hlýtur að gremjast það mjög að þurfa að sjá á eftir plássi undir hana og tvíburana hennar.
Sem sagt, fjölskylda mín er fjölþjóðlegt vandamál (ég hef ekkert minnst á ættlegginn í Fíladelfíu og Alaska) og gott dæmi um það hvernig ekki á að verja lífinu. Það er eins gott að engu okkar detti í hug að fara að nota slæðu.

Það fylgir því margt að vera lögmaður fræga fólksins. Eftirfarandi stóð í Fréttablaði dagsins:
,,…US Weekly… hélt því fram að hjónakornin Spears og Federline  hefðu horft á kynlífsmyndband sem þau höfðu gert ásamt lögfræðingnum sínum eftir að starfsmaður þeirra hótaði að birta það opinberlega…“
Og nú berst sú frétt að þau Britney og Kevin sé skilin. Hvort þeirra ætli taki með sér lögfræðinginn?

Brýnum hnífa, bregðum snöru,
bruggum launráð,  stillum mið.
Komum, finnum þá í fjöru
sem að færri eru en við.

Látum svelta, lemja, kvelja
þá sem líkar okkur ei.
Þau um ekkert eiga að velja
þessi aumu ræfilsgrey.

Drepum konur, drekkjum börnum,
drifnir blóði snúum heim.
Engum við þau koma vörnum
þegar vopnin ógna þeim.

Brennum, nauðgum, brjótum, meiðum,
bræður, pínum, vinnum grand.
Boðum ógn á okkar leiðum
fyrir ástkært föðurland.

Það er athyglisvert að fylgjast með fréttaflutningi af kosningunum í Bandaríkjunum. Nancy Pelosi frá Kaliforníu er væntanlega nýr forseti fulltrúadeildarinnar en þingkonan hefur ákveðnar skoðanir og liggur ekki á þeim. Hún styður t.d. stofnfrumurannsóknir og fréttastofa RUV sagði að hún þætti því nokkuð róttæk. NFS sagði hins vegar þetta vera til marks um vinstrisinnaðar skoðanir hennar!
Það þykja mér fréttir að stofnfrumur séu vinstrisinnaðar!
Það er reyndar líka fremur undarlegt að heyra í sama fréttatíma rætt um fylki Bandaríkjanna. Eða heita þau kannski Bandafylkin? Orðið Bandaríkin er það gagnsætt að varla ætti frekar að þurfa vitnanna við.

Mel Brooks gerði hina ódauðlegu mynd The Producers, sem hefur reyndar verið endurgerð og nú er söngleikurinn kominn á fjalirnar. Þar leikur Melurinn sér með allar hefðir bandaríska söngleikjaformsins og snýr upp á þær og skrumskælir svo úr verður hin besta skemmtun. Senuþjófurinn í dönsku uppsetningunni í Det Ny Teater er auðvitað Franz Liebkind sem túlkaður er með groddalegri kímni af Ole Thestrup.
Það læðist reyndar að mér sá grunur að innblástur í þá persónu sé sóttur í sögu bandaríska nasistaforingjans Georges Lincolns Rockwell en ævi hans er tengd Íslandi órjúfanlegum böndum eins og lesa má í ævisögu hans, This Time The World. En það er önnur saga.