Það fylgir því margt að vera lögmaður fræga fólksins. Eftirfarandi stóð í Fréttablaði dagsins:
,,…US Weekly… hélt því fram að hjónakornin Spears og Federline  hefðu horft á kynlífsmyndband sem þau höfðu gert ásamt lögfræðingnum sínum eftir að starfsmaður þeirra hótaði að birta það opinberlega…“
Og nú berst sú frétt að þau Britney og Kevin sé skilin. Hvort þeirra ætli taki með sér lögfræðinginn?

Brýnum hnífa, bregðum snöru,
bruggum launráð,  stillum mið.
Komum, finnum þá í fjöru
sem að færri eru en við.

Látum svelta, lemja, kvelja
þá sem líkar okkur ei.
Þau um ekkert eiga að velja
þessi aumu ræfilsgrey.

Drepum konur, drekkjum börnum,
drifnir blóði snúum heim.
Engum við þau koma vörnum
þegar vopnin ógna þeim.

Brennum, nauðgum, brjótum, meiðum,
bræður, pínum, vinnum grand.
Boðum ógn á okkar leiðum
fyrir ástkært föðurland.

Það er athyglisvert að fylgjast með fréttaflutningi af kosningunum í Bandaríkjunum. Nancy Pelosi frá Kaliforníu er væntanlega nýr forseti fulltrúadeildarinnar en þingkonan hefur ákveðnar skoðanir og liggur ekki á þeim. Hún styður t.d. stofnfrumurannsóknir og fréttastofa RUV sagði að hún þætti því nokkuð róttæk. NFS sagði hins vegar þetta vera til marks um vinstrisinnaðar skoðanir hennar!
Það þykja mér fréttir að stofnfrumur séu vinstrisinnaðar!
Það er reyndar líka fremur undarlegt að heyra í sama fréttatíma rætt um fylki Bandaríkjanna. Eða heita þau kannski Bandafylkin? Orðið Bandaríkin er það gagnsætt að varla ætti frekar að þurfa vitnanna við.