Langreyðar og smjörklípur

19.10.2006

Davíð kallaði það smjörklípuaðferðina að fleygja inn í þjóðfélagsumræðuna máli sem kveikti svo í fólki að það gleymdi öðrum málum sem gjarna máttu gleymast. Langreyðarnar níu hans Einars Odds eru þó líklega langstærstu smjörklípur sem hér hafa komið á markað.
Hvalveiðileyfið er að ýmsu leyti skynsamur leikur. Það liggur í augum uppi að tegundin er ekki í útrýmingarhættu. Hún étur líka mikið af sjávarfangi ,,frá okkur“. Vísindarök hníga mörg hver að veiðum.
Vandinn er bara sá að hvalir eru í huga heimsbyggðarinnar orðnir ímynd þeirrar náttúru sem maðurinn er smám saman að eyða. Engin rök vinna á þeirri skoðun. Í augum þeirra sem því trúa eru það helgispjöll og barbarismi að skjóta þá.
Við gætum rétt eins tilkynnt gyðingum og múslímum að þeim sé alveg óhætt að borða svínakjöt. Menn vita það að sjálfsögðu en það er trúarsetning fólksins að svínakjöt sé óhreint. Málið er hvort íslenska ríkisstjórnin hefur burði til þess að segja gyðingum og múslímum að borða svínakjöt.

Það er svo önnur og fáránlegri hlið á málinu að það gleymdist að gera ráð fyrir löglegri vinnslu afurðanna. Sú gleymska undirstrikar líklega betur en flest annað þá skammsýni sem einkennt getur ákvarðanir yfirvalda. Hvað hefðu ráðherrar í sænsku ríkisstjórninni gert við þessar aðstæður, jafnvel þótt þeir hefðu aldrei verið sektaðir fyrir ólöglegt fugladráp?

Á þessari síðu er svo hægt að ættleiða hval.

4 Responses to “Langreyðar og smjörklípur”

 1. Sigurður Arnarson Says:

  Samkvæmt frétt í Fréttablaðinu í dag hefst langreiður við á Íslandsmiðum frá maí til ágúst (þannig að ekki er að undra þótt ekkert veiðist). Langreiður er því í landhelgi okkar í þrjá mánuði á ári. Gefur það okkur rétt til að nýta stofninn einhliða og án samninga við aðrar þjóðir?

 2. Matti Says:

  Að sjálfsögðu. Þótt tegundin væri bara fjóra daga árs í íslenskri landhelgi hefðum við fullt leyfi til að útrýma stofninum, alveg á sama hátt og frekur lítill frændi hefur leyfi til að klára makkintosið fyrir frændsystkinum sínu.

 3. Matti Says:

  Svo gætu náttúrulega legið dýralæknisfræðileg rök fyrir leyfinu, að Einar Oddur sé að fá Hval hf. til að losa úthöfin við þær langreyðar sem glíma við það þroskavandamál að vera búnar að missa tímaskyn (ruglast í ríminu).
  Missti Árni Matt kannski af þessum punkti?

 4. Sigurður Arnarson Says:

  Háttvirtur sjávarútvegsráðherra kallar það sjóræningjaveiðar þegar skip bíða við 200 mílna línuna til að veiða fisk á alþjóðlegu hafsvæði í trássi við alþjóðalög. Það virðast gilda allt aðrar reglur um okkur sjálf, rétt eins og í síldarsmugunni um árið. Við höfum rétt til að veiða flökkustofna í trássi við alþjóðalög þótt um fardýr séu að ræða, því það hentar bakhjörlum Flokksins.


Lokað er á athugasemdir.

%d bloggurum líkar þetta: