Davíð kallaði það smjörklípuaðferðina að fleygja inn í þjóðfélagsumræðuna máli sem kveikti svo í fólki að það gleymdi öðrum málum sem gjarna máttu gleymast. Langreyðarnar níu hans Einars Odds eru þó líklega langstærstu smjörklípur sem hér hafa komið á markað.
Hvalveiðileyfið er að ýmsu leyti skynsamur leikur. Það liggur í augum uppi að tegundin er ekki í útrýmingarhættu. Hún étur líka mikið af sjávarfangi ,,frá okkur“. Vísindarök hníga mörg hver að veiðum.
Vandinn er bara sá að hvalir eru í huga heimsbyggðarinnar orðnir ímynd þeirrar náttúru sem maðurinn er smám saman að eyða. Engin rök vinna á þeirri skoðun. Í augum þeirra sem því trúa eru það helgispjöll og barbarismi að skjóta þá.
Við gætum rétt eins tilkynnt gyðingum og múslímum að þeim sé alveg óhætt að borða svínakjöt. Menn vita það að sjálfsögðu en það er trúarsetning fólksins að svínakjöt sé óhreint. Málið er hvort íslenska ríkisstjórnin hefur burði til þess að segja gyðingum og múslímum að borða svínakjöt.

Það er svo önnur og fáránlegri hlið á málinu að það gleymdist að gera ráð fyrir löglegri vinnslu afurðanna. Sú gleymska undirstrikar líklega betur en flest annað þá skammsýni sem einkennt getur ákvarðanir yfirvalda. Hvað hefðu ráðherrar í sænsku ríkisstjórninni gert við þessar aðstæður, jafnvel þótt þeir hefðu aldrei verið sektaðir fyrir ólöglegt fugladráp?

Á þessari síðu er svo hægt að ættleiða hval.

IcelandExpresso

19.10.2006

Titill þessarar færslu verður auðvitað heitið á kaffivélinni hjá IcelandExpress til Akureyrar þegar fyrirtækið byrjar sitt innanlandsflug.