Hraðbrautablogg

30.10.2006

Í nýlegri yfirlýsingu blaðamanna án landamæra kom í ljós að Bandaríkin eru í 57. sæti hvað varðar sjálfstæði fjölmiðla. Það er því ekki að undra að fólk sem eitthvað liggur á hjarta í því landi leiti óhefðbundinna leið til að koma skoðun sinni á framfæri, einkum ef hún gengur í berhögg við ráðstjórnina þar.
Hraðbrautabloggið
er nýjasta og að mörgu leyti áhugaverðasta framlagið. Fólk sem fær góða hugmynd að yfirlýsingu eða slagorði skrifar það á nógu stórt spjald og kemur spjaldinu svo fyrir einhvers staðar þar sem vel sést til þess frá þjóðveginum. Þannig geta menn fengið hundruð þúsunda lesenda á skömmum tíma þegar best lætur. Fulltrúar yfirvalda taka þau svo niður aftur en þá hefur boðskapurinn náð að berast og menn sá fræjum.
Það er eitthvað annað að sjá þetta en meiningarlaust tússkrassið sem hugmyndasnauðir aumingjar nota til að affegra umhverfi sitt, bæði hér á landi og annars staðar.

Óvænt heimsókn

29.10.2006

Einhver brá sér mjög óvænt í morgunkaffi í kjallaranum í húsi í Njörvasundi í hálkunni í morgun.

Á mínum yngri árum þekkti ég nokkuð vel Ridar T. Falls (sem íslenskir gárungar kölluðu stundum Riðar til Falls). Ridar er af norsku, dönsku og íslensku bergi brotinn og kann töluvert fyrir sér í þjóðtungum allra þessara þjóða, auk þess sem hann lærði þokkalega ensku af dægurlagatextum og Dýrlingnum.
Ridar var og er ódrepandi skáldspíra sem stundum orti af nokkurri kímni og kunni að «tænke skævt» eins og Danskurinn segir. Hann stundaði það lengi að offsetfjölrita ljóð sín ódýrt og selja á veitingahúsum. Verðið miðaðist oft við tvo stóra bjóra á staðnum en stundum lét Ridar sér duga einn, einkum ef kvöldsett var orðið. Hann er nú hættur þessu amstri en tjáði mér nýverið í í fágætu póstkorti að kannski myndi hann koma sér upp bloggsíðu á næstunni fyrir hugverk sín.

Tilefni þess að ég rifja þetta upp er það að á sama póstkorti sendi hann mér örlítið betrumbættan texta úr söng eftir þá Lennon/McCartney:

„You say yes,
I say no,
You say stop
and I say, go, go, golddigger…“

 Ég mun kannski við síðara tækifæri rifja upp eldri ljóð og sögur sem tengjast Ridari.

Heather Mills McCartney segir Paul hinn versta mann sem beitt hafi sig ofbeldi og andlegri grimmd.
Paul segir að ekki sé fótur fyrir þessum ásökunum.

Clapton & JJ Cale

28.10.2006

Í sunnudagsmogganum er sagt frá nýju plötunni þeirra Claptons og JJ Cale, The Road to Escondito. Ég hlakka til að heyra hana alla en þangað til getum við hlustað á lag þeirra félaga í straumi, When The War Is Over, ýmist hér eða hér. Gott framlag til baráttunnar gegn ruglinu í Írak.

Í Lesbók Moggans er skemmtileg úttekt á rithöfundarferli Elíasar Mar (skyldi síminn hjá honum ekki hafa verið hleraður einhvern tímann? Hann vann jú á Þjóðviljanum og þótti ,,hættulegur“ maður). En hvers vegna hætti hann að skrifa? Ekkert ljóst svar fékkst við því í greininni.
Þá minntist ég þess tíma þegar ég hafði ungur maður sumarvinnu nokkur ár á drykkjumannahælinu á Akurhóli við Gunnarsholt (eða Alkóhóli eins og sumir kölluðu staðinn). Ég bjó á bókasafninu niðri í kjallara og datt meðal annars í það að lesa Sóleyjarsögu eftir Elías. Einhver vistmannanna sá hvað ég var með í höndunum, hló við og sagði: ,,En veistu hvers vegna Elías hætti að skrifa?“
Nei, það vissi ég ekki og þá kom svarið: ,,Það gerðist þegar læknar hættu að geta ávísað á amfetamín í apótekinu!“

Stjórnmálamenn hafa sumir hverjir lagt allt í sölurnar til að breyta landslagi fjölmiðlunar á Islandi með nýjum fjölmiðlalögum, að eigin sögn til að tryggja sjálfstæði þeirra. Sé litið til þessarar greinar í Politiken virðist það þó vera algjör óþarfi því samkvæmt henni er Ísland í efsta sæti ásamt Finnlandi og fleirum á lista yfir lönd þar sem frelsi fjölmiðla er mest að sögn samtakanna Fréttamenn án landamæra.

Uppi er sá misskilningur að Íslendingar veiði hvali. Það er rangt. Enginn segir að Belgar séu barnaníðingar þótt belgískur borgari hafi verið staðinn að verki við það.
Íslendingar veiða ekki hvali heldur leyfir sjávarútvegsráðherra mikilvægum fjárhagslegum bakhjarli sínum að skutla nokkrar horaðar langreyðar sem eru að villast á Íslandsmiðum á röngum tíma árs.
Minkurinn er eitt af fáum dýrum sem drepur meira en hann getur komið í lóg. Það er aðeins eitt sem réttlætt getur veiðar siðmenntaðs fólks á villtri bráð, að hægt sé að selja afurðirnar til manneldis. Annað er barbarismi – drápsæði eins og rennur á minka í hænsnabúi.
Fái Íslendingar á sig þannig orð er það enginn hvalreki.

Davíð kallaði það smjörklípuaðferðina að fleygja inn í þjóðfélagsumræðuna máli sem kveikti svo í fólki að það gleymdi öðrum málum sem gjarna máttu gleymast. Langreyðarnar níu hans Einars Odds eru þó líklega langstærstu smjörklípur sem hér hafa komið á markað.
Hvalveiðileyfið er að ýmsu leyti skynsamur leikur. Það liggur í augum uppi að tegundin er ekki í útrýmingarhættu. Hún étur líka mikið af sjávarfangi ,,frá okkur“. Vísindarök hníga mörg hver að veiðum.
Vandinn er bara sá að hvalir eru í huga heimsbyggðarinnar orðnir ímynd þeirrar náttúru sem maðurinn er smám saman að eyða. Engin rök vinna á þeirri skoðun. Í augum þeirra sem því trúa eru það helgispjöll og barbarismi að skjóta þá.
Við gætum rétt eins tilkynnt gyðingum og múslímum að þeim sé alveg óhætt að borða svínakjöt. Menn vita það að sjálfsögðu en það er trúarsetning fólksins að svínakjöt sé óhreint. Málið er hvort íslenska ríkisstjórnin hefur burði til þess að segja gyðingum og múslímum að borða svínakjöt.

Það er svo önnur og fáránlegri hlið á málinu að það gleymdist að gera ráð fyrir löglegri vinnslu afurðanna. Sú gleymska undirstrikar líklega betur en flest annað þá skammsýni sem einkennt getur ákvarðanir yfirvalda. Hvað hefðu ráðherrar í sænsku ríkisstjórninni gert við þessar aðstæður, jafnvel þótt þeir hefðu aldrei verið sektaðir fyrir ólöglegt fugladráp?

Á þessari síðu er svo hægt að ættleiða hval.

IcelandExpresso

19.10.2006

Titill þessarar færslu verður auðvitað heitið á kaffivélinni hjá IcelandExpress til Akureyrar þegar fyrirtækið byrjar sitt innanlandsflug.