Ein listaspíran gerði sér mikinn mat úr einhverju drasli úr fórum Hitlers og hélt hvern blaðamannafundinn á fætur öðrum til að lýsa væntanlegum verkum sínum byggðum á þeim. Myndir voru birtar í blöðum og þjóðin beið spennt – eða þannig.
Leið nú og beið og ekkert gerðist. Skyndilega var haldinn einn blaðamannafundurinn enn og með umfjöllun og ljósmynd gerði snillingurinn þjóðinni grein fyrir því hvernig verkið varð honum ofviða. Örugglega reyndar áformaður hluti gjörningsins allan tímann – og algjört prump vitaskuld.
Þetta minnir á annan listamann sem fékk blaðaumfjöllun út á það eitt að fara í uppvask á veitingastað til að verða sér úti um peninga en það er algeng leið hjá listamönnum sem berjast í bökkum  og bönkum.
Það er svo reyndar skemmtilega óvænt tilvísun í villt líf rokkhunda að verkið sem sá fyrrnefndi gafst upp á var að klambra saman stúku!