SL-038

12.8.2006

Þú komst til að kveðja í gær.
Þú kvaddir og allt varð svo hljótt.
Á glugganum frostrósin grær.
Ég gat ekkert sofið í nótt.
(Freymóður J. Jóhannsson)

Orðatiltækið að fara í hundana er þekkt og þýðir að sóa hæfileikum sínum, að klúðra lífinu.
Orðatiltækið að fara í lundana þýðir hins vegar að brjóta óafvitandi af sér þrátt fyrir að maður eigi sjálfur þátt í að setja reglurnar. Hér er nýlegt dæmi um notkun þess í blöðum:
,,Ríkislögreglustjórinn danski fór aldeilis í lundana um daginn þegar til hans sást á 170 km hraða á dönskum þjóðvegi.“

Íslendingar stæra sig stundum af því að vera söguþjóðin en arfleifðin er nú fremur rýr.
Þjóðlagahefð okkar er í heild sinni geymd á safni á Siglufirði og hér eru engin virkilega gömul hús uppistandandi.
Þjóðminjasafnið tók sig til og safnaði á einn stað öllum gömlu íslensku bátunum sem til eru og setti þá í hálfopna skemmu svo hægt væri að kveikja í þeim öllum á einu bretti.
Þjóðbúningur karla var hannaður á síðasta áratug og jóla- og hátíðahefðir okkar í mat og drykk eru nær allar innfluttar, áður fyrr frá Danmörku en nú frá Ameríku. Við erum skotfljótir að gleypa við erlendum siðum vegna þess að við söknum þess svo að eiga enga sjálfir. Byggingalistin er eins og sýnishorn af vestrænum byggingahefðum og þéttbýlisskipulagið er svo ferlegt að það er tekið sem dæmi í erlendum sjónvarpsþáttum um hvernig ekki eigi að skipuleggja borgir.
Það nýjasta er að drjúgur hluti þjóðarinnar breytist í flóttafólk sem hírist í tjaldbúðum fyrstu helgina í ágúst og verður svo hýr viku síðar.

Nagasaki

9.8.2006

Þennan dag fyrir 61 ári gerðu Bandaríkjamenn og Bretar sína aðra tilraun með kjarnorkusprengju yfir borg, að þessu sinni höfuðvígi kristinna Japana í borginni Nagasaki. Í sprengjunni var plúton og hún var umtalsvert stærri en sú sem varpað var á Hírósíma. Sprengjan lenti ekki á sjálfri miðborginni heldur nokkru utar með víkinni og nákvæmlega þar sem dómkirkja kaþólskra stóð.
Það var undarleg tilfinning að ganga um sprengjusafnið þar innan um stóra hópa japanskra skólabarna sem horfðu stórum augum á okkur Vesturlandabúana, fulltrúa þeirra sem vörpuðu „þeim feita“ eða „Fat Man“ eins og sprengjan var kölluð.
Yfir 200.000 manns fórust í sprengingunum en þeir sem lifðu þær af og afkomendur þeirra hafa lengi verið litnir hornauga í Japan og hafa t.d. átt í erfiðleikum með að finna sér maka af öðrum svæðum. Fólk annars staðar óttaðist arfbera þeirra og örugglega hafa ýmsar tröllasögur gengið um afleiðingar árásanna því Japanir fengu ekki mikið að vita um það sem í raun hafði gerst fyrr en löngu síðar.
Enn hefur þriðja tilraunin yfir borg ekki verið gerð og áhöld eru um hverjir muni gera hana. Verða það Íranir eða Ísraelsmenn, „gömlu“ kjarnorkuveldin eða kannski „sjálfstæðir“ hryðjuverkamenn? Tilhugsunin er allt að einu ógnvænleg.

Þegar Kárahnúkadeilan stóð sem hæst hér um árið og á meðan enn hefði verið hægt að stöðva framkvæmdina var forsvarsmönnum Framsóknarflokksins mikið niðri fyrir og skiptu þeir gjarnan rökum í raunrök og tilfinningarök. Höfðu þeir mestu skömm á tilfinningarökum og töldu þau hvergi eiga heima í pólitískri umræðu.
Einmitt þess vegna er athyglisvert að fylgjast með valdabaráttunni í flokknum þar sem allir frambjóðendur berjast fyrir framgangi sínum með… Já, laukrétt, tilfinningarökum.

Hírósíma

6.8.2006

Þennan dag fyrir 61 ári var úrankjarnasprengju varpað á miðborg Hírósíma að tilstuðlan Bandaríkjamanna og Breta og þar með hófust tilraunasprengingar heimsveldanna opinberlega. Hefði árásin átt að hafa eitthvert hernaðarlegt hlutverk hefði sprengjunni auðvitað verið varpað á flotastöðina í Hírósíma sem var með þeim stærstu í Japan en það var ekki gert. Þvert á móti urðu flotaliðarnir bjargvættir fjölmarga borgarbúa.
Það er undarleg tilfinning að ganga um þessa nútímalegu stórborg og ímynda sér svo eyðilegginguna, lágreista miðborg sem bókstaflega hvarf að undanteknum nokkrum sterkbyggðum steinhúsum. Minnismerkin eru fjölmörg og í Minningargarði logar eldur uns síðustu kjarnasprengju heims hefur verið eytt.
Mér þótti lengi friðarhjal Japana svolítið barnalegt en eftir að hafa gengið um sprengjusafnið skil ég það fullkomlega. Svona hörmungar mega aldrei endurtaka sig.

Árni Who?

4.8.2006

Svo virðist sem nokkuð öruggt sé að spá því að efsti maður á D-lista í Suðurlandskjördæmi næsta vor heiti Árni og beri ættarnafn.

Þjóðarmorð?

4.8.2006

Þessar myndir af einu hverfinu í Beirút „fyrir og eftir“ loftárásir Ísraelsmanna sýna svo ekki verður um villst að það er ekki höfuðtilgangur þeirra að ná Hizbollah-mönnum. Þeir hreiðra ekki um sig á svona stöðum þótt kannski haldi einn og einn til í næstu íbúð.
Og svo er nauðsynlegt að leiðrétta þann misskilning að rán á ísraelskum hermanni hafi verið upphaf aðgerða í Líbanon að þessu sinni. Deginum áður námu Ísraelsmenn á brott tvo Palestíumenn og ísraelska hermanninum var rænt til þess að knýja á um að þeim yrði skilað, eftir því sem fram kemur í opinberu bréfi fjögurra merkra rithöfunda.
Árásir nú beinast einkum að hverfum kristinna manna í Beirút. Ætli margir þeirra séu gengnir til liðs við Hizbollah?
Þetta minnir á ástæðu margra Bandaríkjamanna fyrir innrásinni í Írak, að hefna fyrir árásina á Tvíturnanna þótt hún hafi verið gerð af Sádum og Egyptum.

Nú eru þær tvíburasysturnar Bryndís og Freyja að leggja af stað til Keflavíkur og áfram heim til sín til Parísar. Þær hafa lýst upp líf okkar ættingjanna undanfarinn mánuð eða svo og tilveran verður nú um stund grárri en hún var. Það er strax orðið tilhlökkunarefni að hitta þær að nýju, hvort sem það gerist á Íslandi eða í Frakklandi.
Góða ferð, frænkur.

Bandarískur þankagangur er stundum svolítið furðulegur séð utan frá. Texas-dömurnar í hljómsveitinni Dixie Chicks lýstu yfir andstöðu sinni við innrásina í Írak um það leyti sem hún hófst og það hafði næstum kostað þær ferilinn. Bandarískt samfélag fór á hvolf og tónleikum var aflýst, diskar voru brenndir og hatursbréf helltust yfir þær. Í nýlegri útgáfu af Times lýsa menn því fjálglega yfir að tónlistarmenn eigi ekkert að vera að úttala sig um stjórnmál.
Í sama blaði er sagt frá Condi Rice ráðherra en líf hennar snýst um stjórnmál. Hún er hins vegar líka sögð vera býsna góður píanóleikari og lék Brahms fyrir nokkra gesti sína. Þá urðu mikil fagnaðarlæti. Það er greinilega ekki sama Jón og séra Jón í henni Ameríku.