Nagasaki

9.8.2006

Þennan dag fyrir 61 ári gerðu Bandaríkjamenn og Bretar sína aðra tilraun með kjarnorkusprengju yfir borg, að þessu sinni höfuðvígi kristinna Japana í borginni Nagasaki. Í sprengjunni var plúton og hún var umtalsvert stærri en sú sem varpað var á Hírósíma. Sprengjan lenti ekki á sjálfri miðborginni heldur nokkru utar með víkinni og nákvæmlega þar sem dómkirkja kaþólskra stóð.
Það var undarleg tilfinning að ganga um sprengjusafnið þar innan um stóra hópa japanskra skólabarna sem horfðu stórum augum á okkur Vesturlandabúana, fulltrúa þeirra sem vörpuðu „þeim feita“ eða „Fat Man“ eins og sprengjan var kölluð.
Yfir 200.000 manns fórust í sprengingunum en þeir sem lifðu þær af og afkomendur þeirra hafa lengi verið litnir hornauga í Japan og hafa t.d. átt í erfiðleikum með að finna sér maka af öðrum svæðum. Fólk annars staðar óttaðist arfbera þeirra og örugglega hafa ýmsar tröllasögur gengið um afleiðingar árásanna því Japanir fengu ekki mikið að vita um það sem í raun hafði gerst fyrr en löngu síðar.
Enn hefur þriðja tilraunin yfir borg ekki verið gerð og áhöld eru um hverjir muni gera hana. Verða það Íranir eða Ísraelsmenn, „gömlu“ kjarnorkuveldin eða kannski „sjálfstæðir“ hryðjuverkamenn? Tilhugsunin er allt að einu ógnvænleg.