Hírósíma

6.8.2006

Þennan dag fyrir 61 ári var úrankjarnasprengju varpað á miðborg Hírósíma að tilstuðlan Bandaríkjamanna og Breta og þar með hófust tilraunasprengingar heimsveldanna opinberlega. Hefði árásin átt að hafa eitthvert hernaðarlegt hlutverk hefði sprengjunni auðvitað verið varpað á flotastöðina í Hírósíma sem var með þeim stærstu í Japan en það var ekki gert. Þvert á móti urðu flotaliðarnir bjargvættir fjölmarga borgarbúa.
Það er undarleg tilfinning að ganga um þessa nútímalegu stórborg og ímynda sér svo eyðilegginguna, lágreista miðborg sem bókstaflega hvarf að undanteknum nokkrum sterkbyggðum steinhúsum. Minnismerkin eru fjölmörg og í Minningargarði logar eldur uns síðustu kjarnasprengju heims hefur verið eytt.
Mér þótti lengi friðarhjal Japana svolítið barnalegt en eftir að hafa gengið um sprengjusafnið skil ég það fullkomlega. Svona hörmungar mega aldrei endurtaka sig.