Bandarískur þankagangur er stundum svolítið furðulegur séð utan frá. Texas-dömurnar í hljómsveitinni Dixie Chicks lýstu yfir andstöðu sinni við innrásina í Írak um það leyti sem hún hófst og það hafði næstum kostað þær ferilinn. Bandarískt samfélag fór á hvolf og tónleikum var aflýst, diskar voru brenndir og hatursbréf helltust yfir þær. Í nýlegri útgáfu af Times lýsa menn því fjálglega yfir að tónlistarmenn eigi ekkert að vera að úttala sig um stjórnmál.
Í sama blaði er sagt frá Condi Rice ráðherra en líf hennar snýst um stjórnmál. Hún er hins vegar líka sögð vera býsna góður píanóleikari og lék Brahms fyrir nokkra gesti sína. Þá urðu mikil fagnaðarlæti. Það er greinilega ekki sama Jón og séra Jón í henni Ameríku.

Í íþróttum tíðkast það oft að fá erlendan þjálfara til þess að halda utan um landsliðið. Hann horfir á hópinn með ferskum augum og velur liðið á grundvelli hæfileika og samfellu í leik, ekki persónulegra sambanda og annarra klíkukenndra ástæðna.
Nú hefur norski stórmálarinn Odd Nerdrum valið með sér til sýningahalds í Færeyjum það landslið listafólks sem honum hugnast hvað best. Ekki verður annað séð en að Odd hafi tekist valið með afbrigðum vel. Stefán þekki ég hvað síst en Karólína, Georg Guðni og Kristín eru öll í fremstu röð íslenskra listamanna. Gott er að vita til þess að alvörulist verður sýnd í Færeyjum í nafni Íslands en ekki bara eitthvert dútl og leikaraskapur.