Grillveður

22.7.2006

Íslendingar nota staðbundið veðurfræðilegt hugtak, grillveður. Það er eiginlega allt undir 10 metrum á sekúndu.

American Style?

21.7.2006

Norrænt fólk og fjölskyldur þeirra eru sóttar til Líbanon og þótt Norðmenn séu skammaðir fyrir að skilja Íslendinga eftir verður að hafa í huga að þeir skildu líka landa sína eftir því eigi var rúm fyrir þá alla í rútunum.
Okkar fólk þarf þó ekki að borga fyrir flutningana, öfugt við um 8.000 bandaríska ríkisborgara sem vilja flýja Líbanon og skip hefur verið sent eftir. Þeir verða að skrifa undir skuldabréf upp á sem svarar flugfargjaldi til Kýpur eða 120 til 150 dali. Hinn kosturinn er svo sá að fara hvergi og eiga á hættu að vera drepin(n) – af bandarískum sprengjum.

Góðar fréttir!

19.7.2006

Búist er við að dönsku vínin heppnist vel í ár eftir óvenju gott veðurfar í sumar.
Dönsku vínin? Já, einmitt, Danir eru skráðir hjá ESB sem vínframleiðsluland og um það bil 1100 vínbændur framleiða mestanpart þrúgur fyrir rauðvín. Carlsberg hvað?

Nordlund árg. 2002

Margt er skrýtið í kýrhausnum. Nú eru sveitastjórnarmenn höfuðborgarsvæðisins búnir að þusa í áraraðir um kostnaðarsaman rekstur strætó og eilíft vesen er með leiðir og sparnað og samdrátt í farþegafjölda. En svo kemur skyndilega fram það sem þeir hafa örugglega allir vitað allan tímann, að drjúgur hluti af 360 milljóna taprekstri fer beint í ríkissjóð í formi virðisaukaskatts af almenningsþjónustu sem ekki er virðisaukaskattskyld.
Hvað eru menn að hugsa? Er ríkisyfirvöldum algjörlega sama um almenningssamgöngur á stærsta þéttbýlissvæðinu? Líta þau eingöngu á reksturinn sem mjólkurkú?

Í Los Angeles hafa um áratugaskeið tekist á tveir flokkar glæpagengja sem kalla sig Bloods og Crips. Einhvern veginn finnst mér ólíklegt að Íslendingar séu almennt að skipta sér í stuðningshópa gengjanna. En þegar kemur að glæpaverkum í Austurlöndum nær eru margir með allt á hreinu.
,,Ísrael á rétt á að verja sig gegn hryðjuverkamönnum.“
,,Palestínumenn verða að hrinda af sér ógnarokinu.“
Hvoru tveggja er þetta eflaust rétt. Sé reynt að meta fréttaflutninginn hlutlaust virðist þó ekki vera mikill munur á ofbeldisverkunum, helst að Ísraelsmenn eigi vinninginn hvað fjölda drepinna varðar.
Í Líbanon stígur svartur reykur upp frá flugvelli, frá járnbrautarstöð í Haífa. Almennir borgarar eiga fótum fjör að launa. Erlendir gestir í löndunum eru á flótta. Vopn drífur að frá vinveittum ,,aðilum“ sem verða ótvíræðir málsaðilar þrátt fyrir að allir reyni að þvo hendur sínar. Vígamennirnir eru vel varðir en almenningi blæðir.
Það er aðeins eitt ljóst með stríð, fyrr eða síðar lýkur þeim. Sjö daga stríðinu lauk og 100 ára stríðinu lauk. Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs eiga sér langa sögu en þeim mun ljúka. Hve lengi ætla vígamennirnir að halda áfram að láta saklausa karla, konur og börn þjást, fólk sem ekkert vill annað en lifa í sæmilegu öryggi? Fréttir benda ekki til að það standi til. Með hvorum morðingjahópnum heldur þú?

Myndin hér að ofan er frá jarðarför sem skotárás var gerð á. Með hverjum heldur þú?

Nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar leggur til að matarreikningur fjölskyldna landsins verði lækkaður um tugi þúsunda með því að lækka vsk. á gosi og sælgæti af ýmsu tagi. Ef kók og prins telst til matvæla þá leyfi ég mér að benda á aðra vörutegund sem stöðugt algengara verður að landinn neyti í hæfilegu magni við matarborð sín. Þar er um að ræða léttvín og bjór. Það væri örugglega hægt að lækka þennan títtnefnda matarreikning um annað eins með hóflegri álagningu á þær vörur.
Það er svo allt annað mál hvað Lýðheilsustofnun og Neytendasamtökin segja um allar þessar tillögur.
Það er eiginlega alveg ótrúlegt að sælgæti skuli talið til matvæla og segir það meira en margt annað um þá þrýstihópa sem hér hafa lengi haft aðgang að ráðamönnum. Fyrir 30 árum var úrval í matarverslunum af mjög skornum skammti, brauðtegundir fáar og lélegar og álegg allt í skötulíki nema sultur, ostur í blokkum og kindakæfa. En á sama tíma var hægt að fá ótal tegundir af sætu kexi. Hvaða sjónarmið réðu þar för?

Staksteinar eru dálkur ritstjórnar Morgunblaðsins þar sem það er sagt sem ritstjórar vilja eða þora ekki að segja í leiðurum. Vinsælt er að skamma forsetann þar og í dag er honum lesinn pistillinn fyrir að láta glepjast af fræga fólkinu í USA.
Öðruvísi mér áður brá. Hugtakið Íslandsvinur er jú fundið upp af blaðamönnum yfir þá úr hópi fræga fólksins sem einhver afskipti eiga af Íslandi og Íslendingum. Við höfum öll lesið ófáa dálksentimetrana um þannig samræður, yfirlýsingar og loforð sem Staksteinar segja nú að séu hjómið eitt.
Og Staksteinar og æðstu menn í Kína eru reyndar sammála um tilgangsleysi þess að blaðra við frægt fólk í Hvíta húsinu. Í fyrra var forseti Kína í heimsókn í Bandaríkjunum og vakti það mikla athygli þegar hann fyrstur erlendra þjóðhöfðingja hafnaði heimboði frá Bush. Kínverjinn vildi fremur verja dýrmætum tíma sínum í að ræða við forsvarsmenn úr viðskipalífinu.
Hver var að tala um óvænta bólfélaga?

Zidane & Ísrael

11.7.2006

Allir ræða um Zidane sem rekinn var af velli með sitt 14. rauða spjald í blálokin á úrslitaleiknum. Ekki notalegur endir á ferli mikils íþróttamanns en hann var engu að síður kjörinn (skalla)leikmaður HM 2006.
Víðar er þó að finna ofbeldi gagnvart fótboltaspilurum og það versta um langa hríð átti sér stað á Gaza í gær þegar Ísraelsher drap þrjá (eða fjóra, fréttum ber ekki saman) unga pilta sem voru í fótbolta. Reyndar voru alls 14 borgarar drepnir þann sólarhringinn í skotárásum. Í þessu ljósi séð er brot arabans Zidane smávægilegt miðað við morð Ísraelshers á almennum borgurum í Palestínu.

„I’ve seen the future of rock and roll and its name is Bruce Springsteen“, sagði gagnrýnandinn Jon Landau á fyrri hluta áttunda áratugar eftir tónleika með goðinu. Og sjá, skömmu síðar sló Bruce í gegn á heimsvísu með „Born to Run“ og varð ofurstjarna og „The Boss“ með sitt sveitta stórborga- og þjóðvegarokk sem á bestu stundum er mikil guðs gjöf.
Á ýmsu hefur gengið á ferlinum, t.d. var Nebraska 1981 að mörgu leyti hrein eftirlíking af mýkstu lögum Woodys gamla Guthrie og annarra þjóðlagaflytjenda (t.d. Tom Paxton). Þjóðlagatónninn var reyndar undirliggjandi nær allan ferilinn og nú hefur Bruce stigið skrefið til fulls og gefið út þessa dásamlegu plötu með lögum sem tengjast Pete Seeger. Pete er að verða níræður en er mjög ánægður með flest á nýju plötunni og segir að það sé óþarfi að finna lög alltaf upp að nýju, stundum sé ágætt að flytja þau bara vel. Og einhvern veginn heyri ég þessa tónlist ekki fyrir mér í þungum hljóðgervlaútsetningum með flóknum sólóum og taktskiptingum.
Daninn Kim Skotte er þó ekki alveg jafn hrifinn og endar sína gagnrýni á því að segja: „I’ve seen the past of rock and roll and its name is Bruce Springsteen“. Ekki fallega sagt…
Pete Seeger sjálfur berst nú af hörku gegn Íraksstríði Bush yngra.