Þegar maður heyrir orðið betl koma fyrst upp í hugann myndir af fólki á borð við manninn á myndinni hér við hliðina. Það á þó ekki við um Smáralind en þangað villtist ég í dag, illu heilli. Ég eigraði þar um á meðan konan var í búð og á fimm mínútum komu tvær stelpur á 11-13 ára aldrinum (báðar með vinkonu sér við hlið) til mín til að betla peninga. Ég trúði ekki mínum eigin augum.
Það þarf að taka á þessu áður en lengra er gengið. Vel klæddar smástelpur eiga ekki að ganga að ókunnum körlum (eða neinum öðrum) og biðja um peninga í verslunarmiðstöðvum þar sem allt er til sölu.

Bókmenntaáhugi minn var mikill hér á árum áður og lengi var ég alæta á ritað mál af öllu tagi. Ólst reyndar upp á bókasafni. Með árunum hefur þó áhuginn á skáldverkum farið minnkandi jafnframt því sem áhuginn á fræðslu og upplýsingum af öllu tagi eykst. Er það vegna þess að mér er að daprast hugmyndaflugið eða hef ég gert mér grein fyrir því að raunveruleikinn verður alltaf lygilegri og ótrúlegri en nokkur fantasía getur orðið?