Norrænt fólk og fjölskyldur þeirra eru sóttar til Líbanon og þótt Norðmenn séu skammaðir fyrir að skilja Íslendinga eftir verður að hafa í huga að þeir skildu líka landa sína eftir því eigi var rúm fyrir þá alla í rútunum.
Okkar fólk þarf þó ekki að borga fyrir flutningana, öfugt við um 8.000 bandaríska ríkisborgara sem vilja flýja Líbanon og skip hefur verið sent eftir. Þeir verða að skrifa undir skuldabréf upp á sem svarar flugfargjaldi til Kýpur eða 120 til 150 dali. Hinn kosturinn er svo sá að fara hvergi og eiga á hættu að vera drepin(n) – af bandarískum sprengjum.

Góðar fréttir!

19.7.2006

Búist er við að dönsku vínin heppnist vel í ár eftir óvenju gott veðurfar í sumar.
Dönsku vínin? Já, einmitt, Danir eru skráðir hjá ESB sem vínframleiðsluland og um það bil 1100 vínbændur framleiða mestanpart þrúgur fyrir rauðvín. Carlsberg hvað?

Nordlund árg. 2002

Margt er skrýtið í kýrhausnum. Nú eru sveitastjórnarmenn höfuðborgarsvæðisins búnir að þusa í áraraðir um kostnaðarsaman rekstur strætó og eilíft vesen er með leiðir og sparnað og samdrátt í farþegafjölda. En svo kemur skyndilega fram það sem þeir hafa örugglega allir vitað allan tímann, að drjúgur hluti af 360 milljóna taprekstri fer beint í ríkissjóð í formi virðisaukaskatts af almenningsþjónustu sem ekki er virðisaukaskattskyld.
Hvað eru menn að hugsa? Er ríkisyfirvöldum algjörlega sama um almenningssamgöngur á stærsta þéttbýlissvæðinu? Líta þau eingöngu á reksturinn sem mjólkurkú?