Held ég með Bloods eða Crips?

16.7.2006

Í Los Angeles hafa um áratugaskeið tekist á tveir flokkar glæpagengja sem kalla sig Bloods og Crips. Einhvern veginn finnst mér ólíklegt að Íslendingar séu almennt að skipta sér í stuðningshópa gengjanna. En þegar kemur að glæpaverkum í Austurlöndum nær eru margir með allt á hreinu.
,,Ísrael á rétt á að verja sig gegn hryðjuverkamönnum.“
,,Palestínumenn verða að hrinda af sér ógnarokinu.“
Hvoru tveggja er þetta eflaust rétt. Sé reynt að meta fréttaflutninginn hlutlaust virðist þó ekki vera mikill munur á ofbeldisverkunum, helst að Ísraelsmenn eigi vinninginn hvað fjölda drepinna varðar.
Í Líbanon stígur svartur reykur upp frá flugvelli, frá járnbrautarstöð í Haífa. Almennir borgarar eiga fótum fjör að launa. Erlendir gestir í löndunum eru á flótta. Vopn drífur að frá vinveittum ,,aðilum“ sem verða ótvíræðir málsaðilar þrátt fyrir að allir reyni að þvo hendur sínar. Vígamennirnir eru vel varðir en almenningi blæðir.
Það er aðeins eitt ljóst með stríð, fyrr eða síðar lýkur þeim. Sjö daga stríðinu lauk og 100 ára stríðinu lauk. Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs eiga sér langa sögu en þeim mun ljúka. Hve lengi ætla vígamennirnir að halda áfram að láta saklausa karla, konur og börn þjást, fólk sem ekkert vill annað en lifa í sæmilegu öryggi? Fréttir benda ekki til að það standi til. Með hvorum morðingjahópnum heldur þú?

Myndin hér að ofan er frá jarðarför sem skotárás var gerð á. Með hverjum heldur þú?

%d bloggurum líkar þetta: